Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Börnum sem þurfa tannréttingar mismunað eftir fjárhag

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkið mismunar börnum sem þurfa á tannréttingum að halda, segir formaður Tannréttingafélagsins. Aðeins þeir efnameiri geti sent börnin sín enda hafi ríkið ekki hækkað styrkinn í 20 ár. 

Miðað við verðlag ætti styrkur að vera 400 þúsund

Styrkur Sjúkratrygginga er allt að 150 þúsund krónur á barn. Kostnaðurinn nemur 900 til tólf hundruð þúsum krónum . Miðað við hækkun vísitölu síðustu tvo áratugi ætti styrkurinn að vera 400 þúsund krónur en ekki 150 þúsund, samkvæmt útreikningum Tannréttingafélagsins. Og það þýðir að útgjöld Sjúkratrygginga Íslands myndu hækka úr 220 milljónum í rúmlega 700 milljónir á ári. 

Þau efnaminni hætta við

„Ástandið er þannig að börnum er mismunað eftir efnhag,“ segir Kristín Heimisdóttir formaður Tannréttingafélags Íslands, „það sjá allir að það fer bara eftir efnahag foreldra hvort börnin geti farið í svona meðferð eða ekki.“ 

Finnur þú að hópur sem að hefur efnið á því hefur breyst?

„Ég held að við sem störfum sem tannréttingasérfræðingar við finnum kannski minna fyrir því vegna þess að við fáum þetta fólk hreinlega ekki inn á stofurnar. Fólk kannski kemur í fyrstu skoðun, fær upplýsingar um hvað þarf að gera, hvað það kostar og kemur svo ekki aftur.“

Pólitískur vilji er það sem þarf

Fyrir tíu árum var ástandið í tannlækningum barna orðið þannig að 40 til 50 prósent barna voru hætt að koma til tannlæknis því greiðslur Sjúkratrygginga fylgdu ekki verðlagi. Því var kippt í liðinn. 

„Það þarf náttúrulega ekkert nema pólitískan vilja til að laga slíkt. Þetta kostar náttúrulega alltaf peninga og það gerði það á sínum tíma. Nú eru þau mál í lagi.“

Hafið þið gengið á fund heilbrigðisráðherra?

„Já, heilbrigðisráðherra, hann er meðvitaður um ástandið. Við höfum lagt mjög mikla vinnu í það með Sjúkratryggingum að hafa allt tilbúið ef við fáum gó á fjárhagsliðinn, sko. Það virðist bara alltaf stranda á því. Þannig að þetta er náttúrulega biti sem þarf að kljúfa einhvern veginn. En það er nú það sem stjórnmálamenn eiga að gera. Þeir eiga að sjá til þess að skattpeningunum okkar sé deilt þannig að þeir nýtist sem flestum á sem hagkvæmastan hátt. Þetta fer beint í vasa barnafjölskyldna í landinu.“