Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Blóðugur föstudagur í Íran

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Talið er að allt að 133 hafi látið lífið í mótmælum víðsvegar um Íran á undanförnum tveimur vikum, samkvæmt írönskum mannéttindasamtökum. Kveikjan að mótmælabylgjunni er andlát ungrar konu, Möhsu Amini, sem lést í haldi siðgæðislögreglu landsins. Önnur mótmæli brutust út í borginni Zahedan í síðustu viku, en á föstudag er talið að allt að 41 hafi látið lífið þar.

Mahsa Amini, sem var frá Kúrdistan og oftast kölluð Jina, var handtekin af siðgæðislögreglunni í höfuðborginni Teheran fyrir að sýna of mikið af hári undan slæðu sinni. Hún lést tveimur dögum síðar í haldi lögreglu en fjölskylda hennar og vitni segja að hún hafi verið barin til dauða. Írönsk mannréttindasamtök sem starfa í Noregi, IHR, segja að alþjóðasamfélaginu beri skylda til þess að rannsaka glæpinn og koma í veg fyrir aðra slíka glæpi í Íran. Samkvæmt samtökunum hafa að minnsta kosti níutíu og tveir látið lífið í mótmælunum vegna dauða Amini síðan þau hófust, en í dag er sextándi dagur mótmæla. Írönsk stjórnvöld halda því fram að færri hafi látið lífið.

Í síðustu viku brutust út önnur kröftug mótmæli í borginni Zahedan og minnst fjörutíu og einn er talinn hafa dáið í átökum mótmælenda og öryggislögreglu landsins þar á föstudag. IHR segja mótmælin hafa brotist út eftir að lögreglustjóri í hafnarborginni Chabahar var sakaður um að hafa nauðgað fimmtán ára stúlku. Chabahar er í sömu sýslu og Zahedan í suðausturhluta Íran.

Þetta gæti þýtt að allt að 133 hafi samtals látist í mótmælum í Íran á sextán dögum. Formaður IHR segir að dauði mótmælenda jafngildi glæpum gegn mannkyninu. Samtökin hafa lýst síðasta föstudegi sem blóðugum föstudegi Zahedan.