Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ætla að gefa Úkraínu fallbyssur

epa09860578 German Minister of Defense Christine Lambrecht responds to a question from the news media during a press conference in Freedom Plaza in Washington, DC, USA, 30 March 2022. German Chancellor Olaf Scholz has committed 110 billion US dollar for the German armed forces and pledged it would meet the NATO defense spending target of 2 percent of GDP.  EPA-EFE/SHAWN THEW
 Mynd: EPA - RÚV
Þýskaland, Danmörk og Noregur ætla að útvega Úkraínu sextán fallbyssur á næsta ári. Varnarmálaráðherra Þýskalands, Christine Lambrecht, greindi frá þessu eftir heimsókn sína til Úkraínu um helgina. 

Þetta er fyrsta heimsókn varnarmálaráðherrans til Úkraínu frá því að Rússar réðust inn í landið í febrúar. Lambrecht fór til hafnarborgarinnar Odessa í gær, einum degi eftir að Rússlandsforseti tilkynnti um innlimun fjögurra úkraínskra héraða í Rússland. Hún segir loftvarnaflautur hafa farið í gang meðan á heimsókn hennar stóð. „Þetta gerðist tvisvar á nokkrum klukkustundum og við þurftum að fara í neðanjarðarbyrgi. Þetta er veruleiki fólksins þarna,“ segir hún. 

Í tilkynningu frá Lambrecht segir að Þjóðverjar, Danir og Norðmenn hafi samþykkt að fjármagna fallbyssurnar fyrir Úkraínumenn í sameiningu, en þær kosta 92 milljónir evra. Vopnin, sem eru framleidd í Slóvakíu eiga að berast til Úkraínu í byrjun árs 2023. 

Þetta er þó minna en Úkraínumenn hafa ítrekað beðið Þjóðverja um; skriðdreka af tegundinni Leopard, en ríkisstjórn Þýskalands hefur neitað þeirri beiðni. Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, segist ekki vilja að ríkið standi eitt í því að útvega Úkraínumönnum vopn, heldur muni það einungis taka ákvarðanir í samstarfi við vestræna bandamenn sína.

Varnarmálaráðherrann Lambrecht segir að Þýskaland verði ekki beinn þátttakandi í átökum milli Rússa og Úkraínumanna. Það sé alveg ljóst, bæði í augum Þýskalands og Atlantshafsbandalagsins. Hún segir Þýskaland þegar gera mikið til að styðja við Úkraínu.