Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Viðbrögð Sinfóníuhljómsveitarinnar „mikil vonbrigði“

Mynd: Fréttir / Fréttir
Ungt tónlistarfólk er í áfalli yfir viðbrögðum Sinfóníuhljómsveitar Íslands við ásökunum um kynferðisbrot fyrrverandi listræns stjórnenda hljómsveitarinnar, segir formaður nemendafélags tónlistarnema við Listaháskóla Íslands. Nauðsynlegt sé að breyta því hvernig tekið sé á slíkum málum innan tónlistarheimsins. Ungt tónlistarfólk hiki við að taka afstöðu eða segja frá af ótta við afleiðingarnar.

Fátt um svör frá Sinfóníunni

Bjarni Frímann Bjarnason hljómsveitarstjóri og tónskáld, sagði frá því í vikunni að Árni Heimir Ingólfsson, fyrrverandi listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar hafi brotið gegn honum kynferðislega. Bjarni var þá sautján ára, Árni átján árum eldri og kennari Bjarna við Listaháskóla Íslands. 

Bjarni segir Sinfóníuhljómsveitina hafa hylmt yfir brotin í mörg ár. Árni Heimir hefur beðist afsökunar á ósæmilegri hegðun. 

Stjórnendur Sinfóníuhljómsveitarinnar hafa ekki viljað veita fréttastofu viðtal. Í skriflegu svari fyrr í vikunni segir framkvæmdastjórinn að brugðist sé við málum í samræmi við óskir þolanda eftir fremsta megni. Vilji hann ekki að farið sé lengra með málið, takmarki það möguleika stjórnenda. 

Ungt tónlistarfólk „í áfalli“

Bjarni Frímann segist tilheyra ungri kynlóð tónlistarfólks, sem sætti sig ekki við ofríki, valdbeitingu og þöggun þeirra sem haldi um stjórnartauma  í tónlistarheiminum. Erna Vala Arnardóttir er píanóleikari og formaður nemendafélags tónlistardeildar Listaháskóla Íslands. 

„Við stöndum 100 prósent með Bjarna Frímanni og finnst ótrúlega markvert að hann hafi stigið fram og sagt sína sögu. Það tekur mikið á og er ekki auðvelt.“

Hún segir alla í smá áfalli yfir viðbrögðum Sinfóníuhljómsveitarinnar við málinu. 

„Ég finn fyrir miklum vonbrigðum og særindum yfir því hvernig hefur verið tekist á við það og hvernig það er svarað. Það er ótrúlega mikilvægt í öllum ofbeldismálum að takast á við þau strax, taka þeim alvarlega og standa með þolendum og þegar það er ekki gert þá vekur það mikinn ótta og hræðslu.“

Samskipti Árna Heimis við unga menn
 Mynd: Fréttir

Fleiri greina frá samskiptum við Árna

Í kjölfar frásagnar hans hafa fleiri greint frá samskiptum sínum við Árna Heimi. Erna Vala segir að ungt tónlistarfólk eigi erfitt með að taka afstöðu eða stíga fram af ótta við að glata tækifærum innan bransans.
 
- Finnst þér að þurfi að breyta því hvernig tekist er á svona málum?

„Alveg klárlega og ég held að það veki líka upp mikið óöryggi hjá ungu tónlistarfólki í dag sem stefnir á að vinna fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem er stærsti starfsvettvangur fyrir klassíska tónlist á landinu og staðurinn sem að mjög margt fólk er búið að stefna á í langan tíma, þegar maður sér að svona er tekið á svona alverlegu og mikilvægu málefni þá er það eiginlega alveg hrikalegt.“

-Óttast þú það að þú sért núna að tjá þig um þetta mál, að það hafi áhrif á tækifæri þín í framtíðinni?

„Algjörlega. Það er mjög ógnvekjandi.“

 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV