„Við giftum okkur bæði, en allt öðru fólki“

Mynd: Norðurlandaráð / Norðurlandaráð

„Við giftum okkur bæði, en allt öðru fólki“

01.10.2022 - 09:35

Höfundar

„Við erum allavega ekki orðin leið á hvort öðru enn þá,“ segir Kjartan Ragnarsson sem kynntist Sirrý konu sinni ungur við tökur á Stundinni Okkar árið 1972. Þá voru þau í sambandi með öðru fólki, sem þau giftust. Áratugir liðu áður en þau áttuðu sig á því að þau vildu helst vera með hvort öðru.

Kjartan Ragnarsson leikstjóri á og rekur Landnámssetrið á Borgarnesi ásamt Sigríði Margréti Guðmundsdóttur eiginkonu sinni. Kjartan er alinn upp á Ljósvallagötu og vissi það fljótt sem hnokki að hann vildi verða leikhúsmaður. Æskunni á Ljósvallagötu lýsir hann sem stórkostlegri.

Afi Kjartans og afabróðir keyptu húsið í byrjun stríðs og bjuggu eftir það á efri hæðinni með sínum konum. Á neðri hæðinni bjuggu svo dætur þeirra með sínum eiginmönnum. Önnur þeirra var Katrín Guðmundsdóttir móðir Kjartans sem þar bjó með sínum manni, föður Kjartans, Ragnari Kjartanssyni. Það var sannarlega líf og fjör á stóru heimilinu og Kjartan þurfti ekki að leita langt þegar hann vildi athygli eða þjónustu þegar hann var ungur drengur.

„Það voru fjögur eldhús og ég gat hlaupið inn í hvaða eldhús sem var og sagt: Ég vil mjólk og brauðsneið. Ef það var ekki mamma þá var það amma og svo framvegis,“ segir Kjartan sem ræddi við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1.

„Amma segir að þeir verði alltaf alkóhólistar“

Hverfið var leiksvæði drengjanna sem þar bjuggu. Í kirkjugarðinum fóru þeir í Tarzan-leik, á Melavellinum grófu þeir leynigöng og gátu með þeim svindlað sér inn á fótboltaleiki. „Þetta var dýrðarstaður fyrir litla stráka að alast upp,“ rifjar hann upp.

Kjartan og amma hans á efri hæðinni voru afar náin og hann varði miklum tíma uppi hjá henni að ræða málin. Eitt sinn kom hann niður til móður sinnar eftir rabb við ömmu sína og sagði alvarlegur í bragði: „Ég verð örugglega alkóhólisti.“

Þegar móðir hans spurði hissa hvaðan sú yfirlýsing kæmi sagði hann: „Ég var að tala við ömmu og það eina sem mig langar að gera þegar ég verð stór er að verða leikari og hljóðfæraleikari. Amma segir að þeir verði alltaf alkóhólistar.“

Þekkt útilistaverk um allt land

Kjartan á sannarlega ekki langt að sækja listræna hæfileika sína. Faðir hans Ragnar var listamaður sem fór aðeins fimmtán ára að læra að verða keramiker hjá Guðmundi frá Miðdal.

„Hann fór svo í framhaldsnám til Svíþjóðar en byrjaði strax og hann kom heim í kvöldskóla hjá Ásmundi Sveinssyni myndhöggvara. Það endar með því að þeir stofna saman Myndlistarskóla Reykjavíkur þar sem pabbi var skólastjóri fyrstu tíu árin,“ segir Kjartan um föður sinn.

Ragnar Kjartansson átti sér nefnilega snemma þann draum að verða listamaður. Hann fann sig ekki sem skólastjóri, hætti og lagðist í þunglyndi rifjar Kjartan upp. Þá hafi móðir hans, Katrín, tekið við heimilisrekstrinum og farið út á vinnumarkaðinn til að halda heimilinu uppi. „Á einu ári var hún komin í Útvegsbankann og á tveimur þremur árum var hún farin að sjá um erlend viðskipti, sem hún gerði þar til hún fór á eftirlaun.“

Þá hafi móðir hans hvatt sinn mann til að vinna við sín hugðarefni. Faðir hans hafi þá gerst sá myndhöggvari sem hann vildi verða, og sinnti því allar götur síðan. Höggmyndir hans leynast um allt land og þær þekkja Íslendingar vel. Þeirra á meðal eru Sjómennirnir á Ísafirði, Bárður Snæfellsás við Arnarstapa, Vonin í Grindavík, Faxi á Sauðárkróki, Síldveiði á Siglufirði og Auðhumla og mjaltastúlkan á Akureyri.

„Þetta er þungur og erfiður sjúkdómur“

En áður en höggmyndirnar frægu risu allar lagðist Ragnar í rúmið eins og áður sagði. Kjartan segir að þar hafi faðir sinn legið í heilt ár og það var erfitt fyrir fjölskylduna. „Þetta var þungur baggi á heimilinu, að hafa mann í þunglyndi sem neitaði að svara í símann. Þetta er þungur og erfiður sjúkdómur,“ segir Kjartan.

Ragnar faðir hans vildi reyndar meina að Kjartan hefði svipaðan sjúkdóm en önnur einkenni. „Pabbi sagði líka alltaf: Kjartan minn, þú ert alveg jafn maníu-depressívur og ég. Það vantar bara í þig depresjónina, þú ert alltaf í maníu,“ segir Kjartan kíminn.

Stórhætta að foreldrarnir myndu eignast vitleysing

Foreldrar Kjartans voru samheldin hjón en þegar þau kynntust leist fjölskyldum þeirra alls ekki á ráðahaginn í fyrstu. Þau voru nefnilega tengdari en þau grunaði.

Foreldrar hans ólust upp á sitthvorum staðnum á landinu en kynntust sem ungt fólk í Reykjavík. „Hún elst upp í Skaftafelli á Öræfum í þjóðgarðinum sjálfum. Mamma sá bíl í fyrsta skipti þegar hún var þrettán ára, pabbi elst upp á Staðastað í Snæfellsnesi þar sem afi var prestur.“

Þau hittust á balli í Reykjavík í byrjun stríðs, felldu saman hugi en áttuðu sig ekki á því þá að þau voru í raun náskyld. Afi Kjartans, faðir föður hans, og langafi hans eða afi mömmu hans voru nefnilega bræður. Þau voru ekki systkinabörn heldur af öðrum og þriðja ættlið. „Það var stórhætta auðvitað að þau myndu eignast börn sem væru algjörir vitleysingar og hér situr einn,“ segir Kjartan og hlær.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kjartan vissi ungur að árum að hann stefndi á leikhús í framtíðinni

„Nú er ég búinn að fá leið á þessari saumastofu“

Sem leikskáld hefur Kjartan verið afkastamikill og skrifað afar vinsæl verk sem margir þekkja. Á einu ári samdi hann leikritin Saumastofuna sívinsælu, Týndu teskeiðina og Blessað barnalán. „Saumastofan kom því verkefnið var að byggja upp gott verk inn í kvennaárið 1975. En þegar ég var búinn að frumsýna hana og hún var sá sökksess sem hún varð þá uppgötvaði ég að ég var með söguþráð í glannalega satíru, sem var Týnda teskeiðin, og líka farsa því ég var búinn að vera að leika í farsa í þrjú ár stanslaust,“ segir Kjartan sem hafði þá verið að leika í Fló á skinni hjá Leikfélagi Reykjavíkur. „Þegar maður var að leika þar þá uppgötvaði ég að ég væri búinn að byggja upp söguþráð fyrir farsa í svipuðum dúr.“

Saumastofan var leikin fyrir fullu húsi tvö hundruð sinnum þegar hún loksins var látin víkja svo önnur leikrit kæmust fyrir á sviðinu. En hún hefur oft lifnað við síðan. Í leikritinu eru sex stór kvenhlutverk og tvö lítil karlhlutverk sem Kjartan segir ekki síst ástæðuna fyrir því hve mörg áhugafélög með mörgum konum innanborðs hafi sett sýninguna upp.

Þegar sonur Kjartans, myndlistarmaðurinn Ragnar Kjartansson, var lítill hnokki fór hann sjö ára að sjá leikritið í Mosfellsbæ með pabba sínum. Sá litli var ekki eins hrifinn og aðrir áhorfendur því að í hléi stóð hann upp og sagði yfir allan áhorfendaskarann: „Pabbi minn, nú er ég búinn að fá leið á þessari saumastofu.“

„Gerðu það sem hugurinn stefnir til“

Draumurinn um að starfa í leikhúsi kviknaði snemma hjá Kjartani. Sem barn vissi hann ekkert betra en að fara í leikhúsið þar sem ömmusystir hans vann í fatahenginu. Tengdasonur hennar var leikarinn Rúrik Haraldsson og í öllum fjölskylduboðum settist Ragnar hjá Rúrik og spurði hvernig það væri nú að vera alvöru leikari.

Seinna skráði hann sig sjálfur í leiklistarskólann, til að fá loks að vita svarið, en samtímis líka í Kennaraskólann. Þann vetur var hann í báðum skólum, kennaranámi á daginn og að læra leiklist á kvöldin. Þá kenndi Broddi Jóhannesson rektor honum sálfræði í bæði leiklistinni og kennaranáminu og Óskar Halldórsson var einnig á báðum stöðum að kenna ljóðalestur og íslensku.

Það fór þannig að lokum að þeir tóku Kjartan á eintal og sögðu honum að hann yrði að velja á milli skólanna, það gengi ekki að vera í tvöföldu námi. „Broddi sagði: Þú hættir þessari vitleysu í leikhúsinu, nú skaltu klára þinn kennaraskóla en getur leikið þegar námi er lokið. En Óskar sagði: Kjartan minn, gerðu það sem hugurinn stefnir til,“ rifjar Kjartan upp. Það gerði hann, valdi leiklistina og sér ekki eftir því.

Sögðu samningum lausum og fluttu í Borgarnes

Núna rekur hann sem fyrr segir Landnámssetrið í Borgarnesi. Hugmyndina að opnun þess bar hann á borð sveitarfélagsins í Borgarbyggð ásamt Sigríði konu sinni. „Þá höfðu þeir mikið verið að velta fyrir sér hvort ekki væri hægt að gera eitthvað úr Egils sögu sem gerist í kringum Borgarnes og ákveða að ráða okkur í þróunarvinnu í einn vetur,“ segir Kjartan.

Sveitarfélagið tók vel í hugmyndina og sagðist til í að taka hana lengra ef hjónin tækju þátt í framkvæmdinni. „Þið segist trúa því að þetta gangi, sannið það með því að reka þetta,“ segir Kjartan að skilaboðin hafi verið. Á þeim tíma var Sigríður að vinna sem fréttamaður hjá RÚV en Kjartan var á föstum samningi hjá Þjóðleikhúsinu. Þau sögðu samningum sínum lausum og fluttu í Borgarnes. Landnámssetrið hefur verið í blóma síðan.

„Það er ekki slæmt að vera félagar“

Sigríður, eða Sirrý, og Kjartan kynntust þegar sú fyrrnefnda stýrði Stundinni okkar í sjónvarpinu og Kjartan var ungur leikari. Hún fékk hann til að koma og leika í Hatti og Fatti eftir Ólaf Gauk. „Þetta var árið 1972 og þá vorum við ungt fólk.“ Þau heitbundust bæði um þetta leyti en makinn var ekki sá rétti. „Við giftum okkur bæði þegar við vorum að vinna saman en allt öðru fólki,“ segir Kjartan glettinn.

Áratugum síðar þegar hann var að vinna að opnunarsýningu í Borgarleikhúsinu lágu vegir þeirra aftur saman. „Þá hringir frú Sigríður Margrét í mig, nýkomin frá Englandi, búin að læra leikhúsfræði. Hún spyr hvort hún geti ekki orðið aðstoðarleikstjóri hjá mér.“

Það varð hún. Hún var aðstoðarleikstjóri í opnunarsýningunni á litla sviðinu, Ljósi heimsins. „Þarna unnum við saman og það skildu ekki leiðir eftir það. Við erum allavega ekki orðin leið á hvort öðru enn þá,“ segir Kjartan og hlær. „Það er ekki slæmt að vera félagar.“

Þau vinna saman að nánast öllum verkefnum, hafa saman skrifað leikrit og sinna rekstrinum saman. „Það fer ekki blað úr minni tölvu án þess að Sirrý lesi það yfir og öfugt,“ segir Kjartan.

Jörundur hundadagakonungur eins og Forrest Gump

Á söguloftinu eru reglulega sýningar þar sem rithöfundar segja söguna sem rituð er í bækur þeirra. Þá fá áhorfendur að hlýða á þær milliliðalaust beint frá höfundi í huggulegu baðstofurými. Nýverið frumsýndu þau sýninguna 1809 þar sem Einar Már Guðmundsson segir frá Jörundi hundadagakonungi. „Hann er geggjuð persóna,“ segir Kjartan. „Besta lýsingin á Jörundi er það sem Einar Már segir, að hann er eins og Forrest Gump. Hann er alls staðar.“

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Kjartan Ragnarsson í þættinum Segðu mér á Rás 1. Hér má hlýða á þáttinn í heild sinni í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Leiklist

Við erum alltaf að skálda lífið