Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Öryggissveitir hafa drepið 52 konur, karla og börn

epa10215528 Under the wall painting of Iranian late supreme leader Ayatollah Ruhollah Khomeini (R) and Iranian supreme leader Ayatollah Ali Khamenei (L) Iranians attend the Friday prayer ceremony in Tehran, Iran, 30 September 2022. Iranian President Ebrahim Raisi has announced that everything concerning the death of Mahsa Amini, which was felt grief and sorrow for the nation, should be cleared soon by Iranian judiciary.  EPA-EFE/ABEDIN TAHERKENAREH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Harkalegar aðfarir lögreglu og öryggissveita hafa leitt til dauða minnst 52 mótmælenda í Íran síðustu daga, samkvæmt alþjóðlegu mannréttindasamtökunum Amnesty International. Mörg hundruð manns sem tekið hafa þátt í mótmælunum eru slösuð eftir átök við öryggissveitirnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Amnesty.

Segir almenning krefjast dauðarefsingar yfir óeirðaseggjum

Íranskir ríkisfjölmiðlar höfðu áður greint frá því að um eða yfir 40 mótmælendur hefðu látið lífið, og stjórnvöld hafa einnig sagt að ótilgreindur fjöldi liðsmanna öryggissveitanna hafi fallið í átökunum.

Klerkurinn Mohammed-Javad Hajjali-Akbari fullyrti við föstudagsbænir í höfuðborginni Teheran, að fólkið í landinu krefðist dauðarefsingar yfir óeirðaseggjum.

Aukinn kraftur í mótmælum eftir dauða ungrar konu í haldi lögreglu

Yfirvöld hafa gengið fram af mikilli hörku gegn mótmælum sem blossuðu upp um allt land eftir að hin 22 ára gamla Mahsa Amini lést í haldi lögreglu, en hún var handtekin fyrir brot á lögum um klæðnað kvenna.

Siðgæðislögreglan hefur sætt harðri gagnrýni fyrir óhóflega valdbeitingu og hörku og er sökuð um að bera ábyrgð á dauða Amini. Yfirmenn lögreglunnar og innanríkisráðuneytið neita þessu og fullyrða Mahsa Amini hafi fengið hjartaáfall á lögreglustöðinni.

Sendu fyrirmæli um að ganga hart fram gegn mótmælendum

„Amnesty International er með nöfnin á 52 konum, körlum og börnum, sem öryggissveitir ríkisins hafa drepið,“ segir í tilkynningu samtakanna.

Einnig hafa samtökin í höndum afrit af skjali sem lekið var til þeirra og sýnir og sannar að yfirstjórn öryggissveitanna í Teheran sendi fyrirmæli til stjórnenda öryggisveita í öllum héruðum landsins hinn 21. september, um að taka á mótmælendum með mikilli hörku.