Segir almenning krefjast dauðarefsingar yfir óeirðaseggjum
Íranskir ríkisfjölmiðlar höfðu áður greint frá því að um eða yfir 40 mótmælendur hefðu látið lífið, og stjórnvöld hafa einnig sagt að ótilgreindur fjöldi liðsmanna öryggissveitanna hafi fallið í átökunum.
Klerkurinn Mohammed-Javad Hajjali-Akbari fullyrti við föstudagsbænir í höfuðborginni Teheran, að fólkið í landinu krefðist dauðarefsingar yfir óeirðaseggjum.
Aukinn kraftur í mótmælum eftir dauða ungrar konu í haldi lögreglu
Yfirvöld hafa gengið fram af mikilli hörku gegn mótmælum sem blossuðu upp um allt land eftir að hin 22 ára gamla Mahsa Amini lést í haldi lögreglu, en hún var handtekin fyrir brot á lögum um klæðnað kvenna.
Siðgæðislögreglan hefur sætt harðri gagnrýni fyrir óhóflega valdbeitingu og hörku og er sökuð um að bera ábyrgð á dauða Amini. Yfirmenn lögreglunnar og innanríkisráðuneytið neita þessu og fullyrða Mahsa Amini hafi fengið hjartaáfall á lögreglustöðinni.
Sendu fyrirmæli um að ganga hart fram gegn mótmælendum
„Amnesty International er með nöfnin á 52 konum, körlum og börnum, sem öryggissveitir ríkisins hafa drepið,“ segir í tilkynningu samtakanna.
Einnig hafa samtökin í höndum afrit af skjali sem lekið var til þeirra og sýnir og sannar að yfirstjórn öryggissveitanna í Teheran sendi fyrirmæli til stjórnenda öryggisveita í öllum héruðum landsins hinn 21. september, um að taka á mótmælendum með mikilli hörku.