Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Möguleg skólpmengun í loftræstikerfi leikskólans

Leikskólinn Grandaborg
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - Fréttir
Flytja þarf alla starfsemi leikskólans Grandaborgar á aðra leikskóla eftir að í ljós kom að skólplögn undir húsinu hafði farið í sundur, með þeim afleiðingum að mengun komst út í jarðveginn. Kanna þarf hvort skólpmengun gæti hafa borist í loftræstikerfi hússins, sem er á steyptum fleti í kjallaranum. 

Nauðsynlegt að loka leikskólanum

Í september var sagt frá því að þriðjungur starfsfólks á Grandaborg fyndi fyrir einkennum myglu og að sex væru frá vinnu vegna veikinda, þrátt fyrir að húsnæðið hefði í sumar verið tekið í gegn og mygluhreinsað. Vegna þessa þurfti að skerða starfsemi leikskólans verulega. Foreldrar eru langþreyttir eftir að hafa undanfarnar vikur þurft að vera með börnin sín heima einn dag í viku. Nú er svo komið að börnin verða send á leikskóla í öðrum hverfum, eftir að Heilbrigðiseftirlitið og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar mátu það svo að nauðsynlegt væri að loka leikskólanum. Allur jarðvegur undir húsinu verður fjarlægður vegna mengunarinnar og verkfræðistofan Efla mun framkvæma ítarlega úttekt á húsinu. 

Vissu ekki af lagnakjallaranum

Það var í skriðkjallara undir nýrra húsnæði leikskólans sem ónýta skólplögnin uppgötvaðist. Það gerðist ekki fyrr en mánuði eftir að framkvæmdateymi hóf störf í húsnæðinu vegna slæmrar innivistar, en svo virðist sem það hafi ekki haft vitneskju um lagnakjallarann í nýbyggingunni. Þar sem loftræstikerfið er á sama stað er hugsanlegt að í það hafi borist skólpmengað loft úr kjallaranum.

Heilbrigðiseftirlitið fann engin merki um raka í húsinu eftir framkvæmdir sem hófust þar vegna myglu í vor og kláruðust í sumar, en loftgæðamælar sýndu fram á að bráðnauðsynlegt væri að endurnýja loftræstikerfi Grandaborgar. Verst voru loftgæðin í nýrri byggingunni, þar sem kjallarinn með skólplögninni er. 

Starfsemin verður á þremur stöðum

Á mánudag verða flutningar leikskólans undirbúnir og á þriðjudag verður starfsemin flutt. Á miðvikudag verður tekið á móti börnunum á nýjum stöðum. Leikskólinn verður á þremur stöðum til að byrja með en deildum verður haldið saman. Tvær deildir leikskólans fara á Ævintýraborgir, nýjan leikskóla sem styr hefur staðið um að undanförnu í tengslum við skort á leikskólaplássum í höfuðborginni. 

Helena Jónsdóttir, leikskólastjóri Grandaborgar, segist ekki geta tjáð sig um málið að svo stöddu og vísar á Hjördísi Rut Sigurjónsdóttur, samskiptastjóra Skóla- og frístundasviðs. Hjördís segist ekki geta svarað því hvaða áhrif þetta hafi á biðlista eftir leikskólum til lengri tíma en til skamms tíma hafi þetta engin áhrif. Eftir helgi eigi að skoða málið betur og funda með foreldrum, sérfræðingum og stjórnendum leikskólans.