Í sömu yfirlýsingu greindu hermennirnir frá því að landamærum landsins yrði lokað á miðnætti, stjórnarskráin felld úr gildi og ríkisstjórn Damibas leyst upp.
Sömu ástæður og fyrir síðasta valdaráni
Rúmlega 20 einkennisklæddir hermenn mættu í myndver ríkissjónvarpsins í höfuðborginni Ouagadougou um áttaleytið að kvöldi föstudags að staðartíma og greindu frá valdatökunni.
Talsmaður hermannanna sagði þá ákveðna í að axla sína ábyrgð, með eitt skýrt markmið að leiðarljósi: Að tryggja öryggi þjóðarinnar og landamæri landsins á ný. Þetta eru sömu ástæður og Damiba tíndi til fyrir valdaráni sínu í janúar.
Átök hófust að morgni föstudags en engar fréttir af mannfalli
Skothvellir heyrðust nærri forsetahöllinni í höfuðborginni og við höfuðstöðvar herforingjastjórnarinnar að morgni föstudags, samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar. Óljósar fréttir bárust af deilum um launagreiðslur til hermanna og að Damiba ætti í viðræðum við uppreisnarmenn.
Útsendingar ríkissjónvarpsins lágu niðri í nokkrar klukkustundir áður en tilkynningu hinna nýju stjórnarherra var sjónvarpað. Fréttir hafa ekki borist af mannfalli enn sem komið er.
Ekkert hefur miðað í átökunum við íslamista
Þegar Damiba og samherjar hans rændu völdum í janúar réttlættu þeir það með getuleysi stjórnvalda í baráttunni við vígasveitir öfga-íslamista sem haldið hafa landinu í blóðugum heljargreipum frá árinu 2015.
Damiba, sem sjálfur hefur mikla reynslu af vígvellinum og bardögum við þessar vígasveitir, sagði fyrri ríkisstjórn ekki sjá hernum fyrir þeim fjármunum, hergögnum og mannskap sem þyrfti til að binda enda á vargöldina í landinu, og hét algjörum viðsnúningi.
Það hefur ekki gengið eftir og um 40 prósent landsins eru enn nánast á valdi vígasveitanna, sem hafa ýmist tengsl við al Kaída eða Íslamska ríkið. Þær halda áfram grimmilegum og mannskæðum árásum sínum á óbreytta borgara jafnt sem hermenn.
Á annað hundrað manns hafa fallið í slíkum árásum bara í september. Aðbúnaður og útbúnaður hersins hafa lítið skánað og óánægjan hélt því áfram að krauma þar til upp úr sauð í dag, öðru sinni á þessu ári.