Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Grunnskóli Húnabyggðar auglýsir eftir ömmum og öfum

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay - Pexels
Grunnskóli Húnabyggðar hefur nú auglýst eftir svokölluðum lestrarömmum- og öfum. Hlutverk þeirra er að koma reglulega í skólann og hlusta á nemendur lesa og þannig brúa bilið milli kynslóða.

Allir vinna - nemendur græða auka ömmur og afa

Þórhalla Guðbjartsdóttir, skólastjóri í nýjum grunnskóla Húnabyggðar, segir lestrarömmur- og afa hafa gefist vel hingað til og mikil spenna sé fyrir því að hefja verkefnið á ný eftir heimsfaraldur.

„Þetta er náttúrlega bara frábær viðbót að fá auka hendur inn í skóla og þetta bara skapar mjög góð samskipti og brúar bil milli kynslóða og oft verða þetta svona notalegar stundir. Þannig að það eru margfeldisáhrif af þessu, allir græða held ég. Sumir fá svona auka ömmur og afa. Við höfum reyndar bara einu sinni haft lestrarafa.“

Ekki skilyrði að vera amma eða afi

Ömmurnar og afarnir finna hentuga tíma til áheyrnar í samráði við nemendur og kennara og stundum snúast jafnvel hlutverkin við svo ömmur og afar lesa fyrir nemendur. Þó er ekki skilyrði að vera amma eða afi til að veita aðstoð heldur er nóg að hafa áhuga. „Það er bara fólk sem vill oft láta gott af sér leiða og hjálpa til. Og það veitir oft ekki af en að hjálpa til varðandi lestur barna, að grípa fjölbreyttar leiðir.“

Og hún hvetur aðra grunnskóla á landinu til að taka upp verkefnið.