Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Víkingar kannski líklegri en „FH getur bjargað sumrinu“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Víkingar kannski líklegri en „FH getur bjargað sumrinu“

30.09.2022 - 15:53
Bikarúrslit karla í knattspyrnu fara fram á morgun, laugardag. Í úrslitunum mætast ríkjandi bikarmeistarar Víkings og svo FH, sem hefur átt í miklu brasi í deildinni í sumar. Magnús Gylfason, einn sérfræðinga íþróttadeildar RÚV, segir Víkinga líklegri til afreka á morgun en á sama megi ekki afskrifa FH-ingar sem geta bjargað sumrinu með því að sækja titil.

Víkingur er ríkjandi bikarmeistari og hefur haldið bikarnum frá árinu 2019 þegar liðið vann hann einmitt eftir sigur á FH í úrslitaleik. Víkingur situr í 2. sæti Bestu deildar karla á meðan FH er í næst neðsta sæti, og Víkingar hafa unnið báða leiki liðanna í deildinni. Fyrir fram er því eitt og annað sem mælir með ríkjandi meisturunum fyrir leikinn. 

„Aðallega eru þeir bara með gott lið, þeir eru frábært lið og hafa sýnt það náttúrulega í sumar enn og aftur og voru Íslandsmeistarar í fyrra,“ segir Magnús um lið Víkinga og bætir við að liðið hafi náð að peppa sig vel upp fyrir einstaka leiki og búa til mikla stemmingu. Sem dæmi megi taka undanúrslitaleikinn gegn Breiðabliki á útivelli þar sem Víkingar unnu öruggan 3-0 sigur. „Þeir eru greinilega að ná upp mikilli stemmingu.“

Magnús segist hafa sveiflast talsvert fram og til baka í spá sinni um hvernig leikurinn muni spilast á morgun. 

„Ég svona hef svona sveiflast aðeins að þessi leikur verði nokkuð öruggur sigur Víkinga ef allt er eðlilegt en svo einmitt líka sveiflast í því að FH getur bjargað sumrinu eins og hefur oft gerst með lið sem eru að berjast í falli. Hafa hreinlega bara stolið bikartitli, ná bara stemmingu og þeirra síðasti séns.“

Hafnfirðingar búa þá yfir mikilli reynslu, leikmönnum sem hafa orðið bæði Íslands- og bikarmeistarar. „Ef þeir ná réttu blöndunni yngri leikmanna og fá reynslumenn upp á tærnar þá held ég að þetta geti orðið hörku skemmtilegur leikur og spennandi leikur.“ Lítil atvik geti svo auðveldlega breytt gangi leiksins, mark snemma, brottrekstur eða jafnvel víti. „Ég svona er farinn að hallast eftir því sem nær dregur að þetta verði bara hörku leikur og verði miklu meiri leikur en margir eiga von á.“

Viðtalið við Magnús má sjá í spilaranum hér efst á síðunni. Bikarúrslitaleikur FH og Víkings hefst á Laugardalsvelli klukkan 16 á morgun. Leikurinn verður í beinni útsendingu á RÚV, upphitun hefst klukkan 15:15. 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Fyrirliðarnir peppaðir fyrir bikarúrslitaleiknum