Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Neikvæð áhrif Instagram áttu þátt í dauða 14 ára stúlku

30.09.2022 - 17:42
Mynd með færslu
 Mynd:
14 ára bresk stúlka lést af völdum sjálfskaða eftir að hafa orðið fyrir neikvæðum áhrifum frá efni af internetinu. Þetta er niðurstaða dánardómstjóra í Bretlandi. Stúlkan þjáðist af þunglyndi, en dómstjórinn segir efnið sem hún sá hafa valdið henni enn alvarlegri andlegum veikindum.

Andrew Walker, dánardómstjóri í Lundúnum, segir margt af því sem hin 14 ára Molly Russell skoðaði á netinu áður en hún lést hafa verið sérstaklega myndrænt. Hann segir efnið hafa valdið því að henni hafi þótt ástand sitt eðlilegt. Af rúmlega 16 þúsund færslum sem Russell hafði vistað, deilt eða líkað við á Instagram síðasta hálfa árið áður en hún lést, voru yfir tvö þúsund þeirra tengd þunglyndi, sjálfskaða og sjálfsvígi, hefur AFP fréttastofan eftir Walker.

Ekki rétt að segja að hún hafi fyrirfarið sér

Walker segir stúlkuna hafa dáið af völdum sjálfskaða á meðan hún þjáðist af þunglyndi. Hann segir ekki rétt að tala um að hún hafi fyrirfarið sér. Russell lést í nóvember árið 2017, og hóf fjölskylda hennar þá þegar herferð til þess að beina kastljósinu að hættum samfélagsmiðla. 

Ian, faðir Molly, segir í tilkynningu að hún hafi verið hugulsöm, umhyggjusöm, forvitin, falleg og hafi gefið mikið af sér. Hann segir foreldrana hafa heyrt stjórnanda Meta, eiganda Instagram, lýsa efninu sem algrímið ýtti að dóttur þeirra sem öruggu, og það brjóti ekki í bága við stefnu fyrirtækisins. Ef efnið væri svona öruggt væri dóttir þeirra líklega enn á lífi, hefur AFP fréttastofan eftir Ian Russell. „Í stað þess að vera fjögurra manna fjölskylda, þá værum við öll fimm að horfa bjartsýn til þeirrar framtíðar sem okkar dásamlega Molly átti fyrir sér,“ segir Ian. 

Baðst afsökunar fyrir hönd Meta

Yfirmaður heilsu og velferðar hjá Meta, Elizabeth Lagon, baðst afsökunar fyrir dómi á efninu sem Russell komst í tæri við. Lögmaður fjölskyldu Russell spurði Lagon hvers vegna Instagram leyfði börnum að nota miðilinn þegar fólki er leyft að setja efni þangað sem er mögulega skaðlegt. „Þið eruð ekki foreldrar, þið eruð bara fyrirtæki í Bandaríkjunum. Þið hafið engan rétt á að gera þetta. Börnin sem fá aðgang að miðlinum hafa enga burði til þess að samþykkja þetta,“ hefur AFP eftir lögmanninum Oliver Sanders.

Lofa bót og betrun

Talskona Meta las yfirlýsingu frá fyrirtækinu eftir úrskurðinn. Hún sagði hugi starfsfólks Meta vera hjá fjölskyldu Russell og öllum þeim sem eiga um sárt að binda vegna fráfalls hennar. Fyrirtækið ætli að halda störfum sínum með fremstu sjálfstæðu sérfræðingum heims áfram til þess að tryggja að breytingar sem þau geri veiti ungmennum bestu mögulegu vörn og stuðning.

Góðgerðasamtökin NSPCC segja að dómurinn verði að marka þáttaskil. Tæknifyrirtæki verði að sæta ábyrgð þegar öryggi barna er ekki sett í forgang hjá þeim.

Á vef SAFT má finna fróðleik og heilræði þegar kemur að notkun samfélagsmiðla, bæði fyrir börn og foreldra.

Bretaprins tjáir sig

Vilhjálmur Bretaprins tjáir sig um málið á Twitter. Hann segir enga foreldra eiga að þurfa að þola það sem Ian Russell og fjölskylda hans hafa farið í gegnum. Öryggi barna og ungmenna verði að vera algjört frumskilyrði.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV