Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Metanský teygir sig hingað til lands í dag

Mynd með færslu
 Mynd: NRK
Aldrei hefur mælst jafn mikil metanmengun í lofti í Noregi og Svíþjóð og síðustu daga, eftir að gas tók að streyma úr rifum á rússnesku gasleiðslunum Nordstream 1 og 2 á botni Eystrasalts. Rifur komu á leiðslurnar á minnst fjórum stöðum á mánudag í sprengingum, sem nær öruggt er talið að hafi orðið af mannavöldum.

Um 96 prósent af gasinu sem um leiðslurnar fer er metangas, sem er skæð gróðurhúsalofttegund sem brýnt er að brenna svo hún sleppi ekki út í andrúmsloftið.

20 prósenta aukning

Í frétt norska ríkisútvarpsins NRK er haft eftir Stephen Matthew Platt, vísindamanni við norsku loftslagsrannsóknastofnunina, að metangildin í loftinu yfir Noregi hafi komið honum á óvart. Þau hafi hækkað um 20 prósent frá því á mánudag, sem sé mun meira en hann hafi búist við þrátt fyrir lekann mikla.

Af niðurstöðun mælinganna reiknast honum til að minnst 40.000 tonn af metani hafi sloppið út í andrúmsloftið síðustu daga, sem er tvöfalt meira en rekja má til allrar olíu- og gasvinnslu Norðmanna á heilu ári. Hann leggur þó áherslu á að fólki sé engin hætta búin. Í þessu magni sé gasið hvorki hættulegt heilsu manna né eldfimt; áhrifin séu fyrst og fremst slæm fyrir loftslagið. Samkvæmt spálíkani sem norska ríkisútvarpið birtir á vef sínum sést að gasið verður að mestu yfir Skandinavíu en skýið teygir anga sína hingað til lands í kvöld. 

Öflug gróðurhúsalofttegund

Metan er talið um það bil 32 sinnum skæðari gróðurhúsalofttegund en koldíoxíð. Á móti kemur að það endist heldur skemur. „Ef áhrifin eru reiknuð út frá 100 ára tímabili, þá er gjarnan talað um að metanið sé 20 sinnum öflugra en koldíoxíð,“ segir rannsakandinn Bjørn Samset hjá evrópsku loftslagsrannsóknastofnuninni Cicero.

Hann segir að þótt lekinn úr leiðslunum sé slæmur og hafi vissulega hækkað hlutfall metans í andrúmsloftinu yfir Skandinavíu, þá hafi þetta lítið að segja í hinu stóra samhengi. Bendir hann á að orkuframleiðsla og landbúnaður losi um milljón tonn af metani út í andrúmsloftið á hverjum degi.

„Auðvitað eru 40.000 tonn mjög mikið og þetta er óþarfa losun sem bætist ofan á allt annað. En í samanburði við allt annað sem við erum að gera er þetta ekki svo ýkja mikið,“ segir Samset.