Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fimm feitar neglur á föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: Biig Piig - Kerosene

Fimm feitar neglur á föstudegi

30.09.2022 - 14:00

Höfundar

September kveður okkur tónlistaráhugafólk heldur betur með látum og bíður upp á spriklandi ferska tónlist frá LCD Soundsystem, Yeah Yeah Yeahs, The Orielles, Biig Piig og Fred Again..

LCD Soundsystem - New Body Rhumba

Hljómsveitin LCD Soundsystem hefur verið þögul í fimm ár en rauf þögnina í gær með laginu New Body Rhumba. Lagið er að finna í kvikmyndinni White Noise og það er ekki annað að heyra en að miðaldra jálkurinn James Murphy sé bara í nokkuð góðu stuði.


Yeah Yeah Yeahs - Wolf

Áfram með New York-töffaraskap því nýja plata Yeah Yeah Yeahs, Cool It Down, kemur út í dag og dómar eru í jákvæðari kantinum. Cool It Down er fyrsta plata þeirra í níu ár og titillinn á plötunni kemur frá samnefndu lagi Velvet Underground af plötu þeirra Loaded.


The Orielles - The Room

Enska indí-tríóið The Orielles koma frá Halifax í Jórvíkurskíri og senda frá sér sína Tableau í næstu viku. Lagið The Room er hressandi grúv-bomba sem þau segja að hafi orðið til á aðeins of langri hljómsveitaræfingu.


Biig Piig - Kerosene

Írska tónlistarkonan og rapparinn Jessica Smyth sem kallar sig Biig Piig er ekkert ófeimin við að gera alls konar tónlist og vippar sér fimlega á milli tónlistarstefna og tungumála. Í laginu Kerosene er grúvið skrúfað í botn en um lagið segir hún að það sé um eldheitt ástarsamband þar sem hún er rifinn úr fötunum þegar leikar æsast.


Fred again.. - Danielle (smile on my face)

Pródúserinn og plötusnúðurinn Fred Again.. er sjóðandi heitur á dansgólfum heimsins þessa dagana og stefnir á að gefa út plötu í byrjun næsta árs. Annars virðast flestir vilja leika við Fred og listinn af tónlistarfólki sem hann hefur unnið með er býsna áhrifamikill og fjölbreyttur en hann inniheldur nöfn eins og Ed Sheeran, The xx, Eminem, Underworld, Skrillex, BTS, Stormsy og Brian Eno svo eitthvað sé týnt til.


Fimman á spottanum