Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Boða hertar viðskiptaþvinganir gegn Rússum

30.09.2022 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Ríki heims eru farin að bregðast við ræðu Vladimirs Pútíns, forseta Rússlands, þar sem hann tilkynnti um innlimun fjögurra úkraínskra héraða í Rússland. Bandaríkin hafa sagst ætla að beita hörðum viðskiptaþvingunum gegn rússneskum embættismönnum. Auk þess hyggjast G7 ríkin sekta þau lönd sem styðji tilraun Rússa til að innlima héruðin fjögur.

Utanríkisráðherrar G7 ríkjanna hafa gefið það út að ríkin samþykki aldrei innlimun Rússa á úkraínsku héruðunum, eða niðurstöður „falskosninga“, sem hafi verið framkvæmdar undir ægivaldi vopnaðra hermanna. Í tilkynningu frá ráðherrunum segir ennfremur að með þessum aðgerðum Pútíns sökkvi Rússar enn dýpra í skýlausum brotum sínum á alþjóðalögum. Evrópuþingið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem innlimuninni er hafnað og hún eindregið fordæmd. Þingið segir innlimun Rússa ekki hafa nein lagaleg áhrif.

Utanríkisráðherra Bretlands, James Cleverly, segir að Bretland herði viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi í kjölfar ólöglegrar innlimunar. Hann segir að refsiaðgerðirnar feli í sér takmarkanir á viðskiptum Rússa í Bretlandi, auk þess að banna útflutning á tæplega sjö hundruð vörum sem eru mikilvægar fyrir framleiðslu landsins. 

Giorgia Meloni, formaður Bræðralags Ítalíu, sem bar sigur úr býtum í þingkosningum á Ítalíu í síðustu viku, gagnrýnir framgöngu Rússlandsforseta og segir hana ógn við gervalla Evrópu.

Forsætisráðherra Svíþjóðar, Magdalena Andersson, hefur fordæmt innlimunina og segir hana ólöglega. Hún sagði þetta nýjasta útspil Rússa „algjöran“ farsa.