Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ætla að sitja áfram í bæjarstjórn eftir úrsögn

30.09.2022 - 08:21
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Jón Hjaltason og Brynjólfur Ingvarsson, fyrrum bæjarfulltrúar Flokks Fólksins á Akureyri ætla sitja sem fastast í bæjarstjórn og nefndum Akureyrarbæjar þrátt fyrir úrsögn þeirra úr flokknum. Þetta segir Jón Hjaltason.

Flokkurinn sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi þar sem þeir eru beðnir um að stíga til hliðar. 

„Það er vegið að okkur þarna með afskaplega óheiðarlegum hætti. Ég er búinn að gera þeim það tilboð, þessu óheiðarlega fólki, ef það dregur sínar ásakanir sínar til baka og biðst afsökunar, þá skuli ég íhuga þetta fyrir þau. Að öðrum kosti ekki.“

Viðurkenning ekki nóg

Í tilkynningu flokksins er viðurkennt að ekki sé um að ræða ásakanir um kynferðislegt áreiti á hendur Jóni. Hann segir að sú viðurkenning sé ekki nóg.

„Þetta er alls ekki alvarlegasta ásökunin sem þau virðast hreint ekki átta sig á. Þau eru nú ekki að hafa mörg orð um þetta kynferðislega áreiti,“ segir hann.

„Mér finnst það byggt á afskaplega veikum grunni. Það sem hinsvegar er alvarlegt í þessum ásökunum er að þau segja að við höfum beitt þær ofbeldisfullri hegðun síðan snemma í vor og þetta er tekið beint upp úr þessari ályktun þessara þriggja. Þetta er grófasta einelti sem hugsast getur.“