Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Pútín viðurkennir sjálfstæði Kherson og Zaporizhzhia

epa10214215 Russian President Vladimir Putin chairs a meeting with the members for Russian security Council via a video conference at the Kremlin in Moscow, Russia, 29 September 2022.  EPA-EFE/GAVRIIL GRIGOROV/SPUTNIK/KREMLIN / POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL
Vladimír Pútín Rússlandsforseti viðurkenndi sjálfstæði tveggja héraða Úkraínu, Kherson og Zaporizhzhia, með formlegri tilskipun í kvöld. Á morgun er talið að hann innlimi héröðin formlega inn í Rússland með mikilli viðhöfn.

Rússneskar leppstjórnir í héruðunum tveimur ásamt héruðunum Donetsk og Luhansk blésu til kosninga í vikunni þar sem íbúar kusu um hvort þeir vildu gangast Rússlandi á hönd eða ekki. 

Gríðarlegur meirihluti kaus með innlimun en kosningarnar eru víðast hvar taldar ómarktækar og jafnvel brot á alþjóðalögum. Ekkert óháð eftirlit var haft með framkvæmd kosninganna. 

Pútín hefur áður sagst tilbúinn til þess að verja héruðin fjögur með kjarnorkuvopnum, að því er fram kemur í frétt AFP um málið. Það hefur þó ekki stöðvað mikla gagnsókn Úkraínuhers í austurhluta landsins, þar sem héruðin öll liggja. 

Meðal þeirra sem hafa fordæmt kosningarnar í héruðunum eru Joe Biden Bandaríkjaforseti, Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, og auðvitað Volodomyr Zelensky forseti Úkraínu. Hann sagði að eina rétta viðbragð Vesturlanda við framgöngu Rússa í héruðunum fjórum væri að beita þá harðari viðskiptaþvingunum. Það var enda gert. Ursula von der Layen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kynnti nýjan aðgerðapakka í gær sem ætlað var að einangra Rússa enn frekar frá alþjóðamörkuðum.