Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Nord Stream-gaslekinn hefur ekki áhrif á lífríki sjávar

Mynd með færslu
 Mynd: Erlendur Bogason
Gaslekinn í Nord Stream-leiðslunum í Eystrasalti hefur ekki áhrif á líffríkið í sjónum á slysstað. Hrönn Egilsdóttir, líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir umhverfisáhrifa fremur að gæta í andrúmsloftinu.

Leki uppgötvaðist á fjórum stöðum í rússnesku gasleiðslunum Nord Stream 1 og 2, á dönskum og sænskum yfirráðasvæðum í vikunni. Litið er svo á að skemmdaverk hafi verið unnin á leiðslunum en sprengjuhvellir mældust á jarðskjálftamælum neðansjávar skömmu áður en leki fannst.

Gas lekur úr leiðslunum og út í sjó á fjórum stöðum í Eystrasalti. Hrönn var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun. 

„Það er ekki búist við miklum áhrifum á líffríkið á svæðinu. Þetta er mikið gas, mest metangas. Metan er þannig að það er ekki að ganga í samband við sjó og breyta efnakerfi sjávar heldur í rauninni rís það upp í gegnum vatnssúluna og losar út í gegnum andrúmsloftið.“

Hún segir þetta því ekki stórt mengunarvandamál eins og ef um olíuleka væri að ræða. Það sé þó alltaf slæmt að mikið magn af metani losni út í andrúmsloftið. Metan sé afar öflug gróðurhúslofttegund. „Ef þú horfir yfir 20 ára tímabil þá er metan 80 sinnum öflugari gróðurhúsloftegund en koltvíoxíð.“ 

Losun metans út í andrúmsloftið er stórt vandamál á heimsvísu burt séð frá Nord Stream-lekanum. Þessi leki er um 100 þúsund til 350 þúsund tonn og því aðeins dropi í hafið. „Á heimsvísu er talið að um 135 milljón tonn af metani sleppi út í andrúmsloftið árlega af völdum orkugeirans. “

Fréttin hefur verið uppfærð.