Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Munaði minnstu að aftur yrði flogið til Parísar

29.09.2022 - 04:50
Mynd með færslu
Það væsti ekki um farþega TransAvia-vélarinnar þar sem hún stóð á Egilsstaðaflugvelli í nótt en upplýsingaskortur var það sem helst vakti óánægju þeirra.  Mynd: Katrín Albertsdóttir - Aðsend
Búið var að tilkynna farþegum í vél franska flugfélagsins Transavia, sem beint var til Egilsstaða þegar Keflavíkurflugvelli var lokað í gærkvöld, að flogið yrði með það aftur til Parísar þegar þau tíðindi bárust að búið væri að opna fyrir umferð til Keflavíkur á ný. Farþegar fengu ekki að fara út úr vélinni á meðan hún staldraði við á Egilsstöðum.

„Við erum búin að sitja í vélinni í rúma tvo tíma eftir að hún lenti hér á Egilsstöðum skömmu eftir miðnætti,“ sagði Katrín Albertsdóttir, farþegi í vél TransAvia, í samtali við fréttastofu á þriðja tímanum í nótt.

Vélin, sem var að koma frá París, var önnur tveggja farþegaþotna sem lentu á Egilsstöðum eftir að henni var snúið frá Keflavíkurflugvelli. Nokkrum vélum var snúið þaðan í gærkvöld og nótt eftir að flutningavél UPS var beint þangað í kjölfar sprengjuhótunar.

Verst að fá engar upplýsingar

Katrín sagði einna verst að engar upplýsingar væri að hafa um hvað væri að gerast. „Okkur var sagt að eitthvað alvarlegt hefði gerst í Keflavík sem ylli því að ekki væri hægt að lenda þar, en ekkert meira.“

Vélin var nokkurn veginn full og farþegarnir flestir erlendir, að sögn Katrínar. Ágætlega hafi farið um fólk og áhöfn vélarinnar afar vinaleg og ekkert út á hana að setja, en upplýsingaskorturinn hafi farið illa í fólk.

Boðuð brottför til Parísar vakti litla lukku

Það varð svo ekki til bæta stemmninguna um borð þegar tilkynnt var snemma á þriðja tímanum að líklegast væri að vélin flygi aftur til Parísar. Um óttubil var svo tilkynnt um endanlega ákvörðun þessa efnis. „Þetta var ömurlegt, fólk bara stundi,“ sagði Katrín, aðspurð um viðbrögðin við þeirri tilkynningu.

Það liðu þó ekki nema nokkrar mínútur þar til tilkynning barst um að búið væri að opna fyrir umferð um Keflavíkurflugvöll og að vélinni yrði flogið þangað eftir allt saman. Hún fór í loftið stundarfjórðungi fyrir fjögur og er væntanleg til Keflavíkur um hálf fimm.