Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Húsleit hjá föður Sigríðar og rafbyssur í vændum

29.09.2022 - 19:18
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Ríkislögreglustjóri sagði sig frá umfangsmikilli rannsókn á ætlaðri skipulagningu hryðjuverka hér á landi eftir að húsleit var gerð heima hjá föður hennar, sem er þekktur byssusmiður og vopnasali. Dómsmálaráðherra hyggur á reglugerð sem heimilar lögreglu að bera rafbyssur.

„Í gær óskaði ríkislögreglustjóri eftir því við embætti ríkissaksóknara að segja sig frá rannsókn málsins er varðar ætlaðan undirbúning til hryðjuverka,“ sagði Sveinn Ingiberg Magnússon, yfirlögregluþjónn hjá embætti héraðssaksóknara, á blaðamannafundi lögreglu í dag. 

Þekktur byssusmiður

Ástæðan er vanhæfi Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra í málinu. Heimildir fréttastofu herma að nafn föður hennar, Guðjóns Valdimarssonar, hafi komið upp við rannsókn málsins, við skýrslutökur yfir sakborningum og í framhaldinu var gerð húsleit hjá honum í gær. Guðjón er þekktur byssusmiður og vopnasali, og selur vopn og varahluti í þau meðal annars á heimasíðu sinni, vopnasalinn.net. 

Hann er sagður eiga gríðarstórt byssusafn en heimildir herma enn fremur að hann sé með svokallað safnaleyfi, sem heimilar fólki að eiga vopn sem annars eru ólögleg hér á landi, til dæmis á grundvelli þess að þau hafi sögulegt gildi. Lögregla hefur ekki viljað veita upplýsingar um hugsanleg tengsl Guðjóns við málið. 

Þá greindi lögregla frá því að gæsluvarðhald yfir öðrum mannanna sem grunaður er í málinu hafi í dag verið framlengt um eina viku. Fleiri hafi verið handteknir en aðeins tveir séu í gæsluvarðhaldi.

„Í tengslum við rannsóknina hefur lögreglan farið í 17 húsleitir og haldlagt í þeim um 60 muni með rafrænum gögnum. Svo sem síma, tölvur og annan rafrænan búnað. Við þessar húsleitir hafa fundist tugir skotvopna en sum þeirra voru hlaðin við haldlagningu. Sum vopnanna voru sett saman með þrívíddarprentuðum íhlutum auk íhluta sem ætla má að hafi verið keyptir sérstaklega til framleiðslu,“ sagði Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, á blaðamannafundinum. 

Annars er stærstur hluti vopnanna verksmiðjuframleiddur og breyttur þannig að vopnin eru gerð hálfsjálfvirk.

Lögreglumenn beri rafbyssur

Rannsóknin hefur opnað á umræðu um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og þá hyggst dómsmálaráðherra leggja fram reglugerð um að lögreglumenn beri á sér rafbyssur. Um tímabundið tilraunaverkefni er að ræða og hluti lögreglumannanna mun bera slík vopn. Þá er enn til rannsóknar hvort mennirnir tveir aðhyllist öfgasamtök og heimildir herma að grunur leiki á að Anders Behring Breivik hafi verið hinum grunuðu fyrirmynd. 

sunnaks's picture
Sunna Karen Sigurþórsdóttir
Fréttastofa RÚV