Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hermenn segja forsetann fífl og innrásina heimskulega

29.09.2022 - 17:09
epa10213497 Russian conscripted men say goodbye to relatives at a recruiting office during Russia's partial military mobilization in Moscow, Russia, 29 September 2022. Russian President Putin announced in a televised address to the nation on 21 September, that he signed a decree on partial mobilization in the Russian Federation due to the conflict in Ukraine. Russian Defense Minister Shoigu said that 300,000 people would be called up for service as part of the move.  EPA-EFE/YURI KOCHETKOV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
„Mamma, ég held að þetta stríð sé heimskulegasta ákvörðun sem ríkisstjórn okkar hefur tekið.“ Þannig hljómar hluti af símtali rússneska hermannsins Sergei til móður sinnar í mars. New York Times hefur komist yfir þúsundir símtala rússneskra hermanna, sem voru í eða við bæinn Bucha í útjaðri Kænugarðs í mars. 

Hermennirnir hringdu úr 22 símum sem þeir deildu. Símtölin eru til eiginkvenna, ættingja og vina, þrátt fyrir að þeir hafi fengið skipun um að hringja ekki heim. Úkraínskar löggæslustofnanir hleruðu símtölin, og komust þau síðar í hendur blaðamanna New York Times (Times er áskriftarvefur). Þar varpa hermennirnir nýju ljósi á ringulreiðina á upphafsstigum innrásar Rússa, og vísa til drápa sem gætu verið sannanir á stríðsglæpum.

Meðal þess sem hermennirnir greina frá er að vera hent út í stríðið án nokkurs fyrirvara. Þeir segja frá miklu mannfalli í misheppnaðri tilraun sinni til að hertaka Kænugarð, og segjast hafa fengið skipanir um að drepa alla sem þeir sjá. Einn hermannanna kallar Vladimír Pútín, forseta Rússlands, fífl fyrir að fyrirskipa innrásina.

Mikið mannfall í rússneska hernum

Miðað við símtölin varð mikið mannfall í herbúðum Rússa strax í upphafi innrásarinnar. Fljótlega áttuðu hermenn sig á að engin leið væri að hertaka Kænugarð. Fyrrnefndur Sergei sagði móður sinni að aðeins 38 af 400 fallhlífarhermönnum í sveit hans hefðu komist lífs af. Aðrir hermenn sögðu að allt að 60 prósent herdeilda þeirra hefðu farist. Ástvinur hermanns í Rússlandi tjáir honum að líkkistur berist ótt og títt til Rússlands. 

Úkraínsk stjórnvöld hafa áður sakað Rússa um grófa stríðsglæpi í Bucha. Þeirra á meðal eru aftökur mörg hundruð almennra borgara. Stjórnvöld í Moskvu hafna þeim ásökunum alfarið. Einn hermanna segir kærustu sinni frá því að þeim hafi verið skipað að drepa alla sem þeir sjái á vappi um bæinn. Annar hermaður segir ættingja sínum frá líkamsleifum sem liggja í tætlum á víð og dreif um götur bæjarins.

Sáu enga nasista í Úkraínu

Eftir því sem leið á marsmánuð fór að bera á uppgjöf í símtölum hermannanna heim. Aleksander nokkur kallaði Pútín fífl. „Hann vill taka Kænugarð. Við eigum enga möguleika á því,“ hefur New York Times eftir símtali hans heim. Sergei sagði í símtali við móður sína að innrásin hefði verið gerð á fölskum forsendum. Allt tal rússneskra stjórnvalda um nasista í Úkraínu væri bull. Hann sagði engan hafa þurft á þessu stríði að halda, allir væru bara að lifa sínu venjulega lífi rétt eins og í Rússlandi. Nú þyrftu íbúar í Úkraínu bara að búa í kjöllurum.

Ekki lengur þeirra vandamál

Eini drifkraftur hermannanna virtist vera launin. Aleksander sagði við kærustu sína að hann væri hundleiður á hernaðarbröltinu, en velti því fyrir sér hvar annars staðar hann gæti eiginlega þénað viðlíka upphæðir.

Í lok mars tjáðu margir ástvinum sínum að þeir væru komnir yfir landamærin til Hvíta-Rússlands. Hvert framhald stríðsins yrði væri ekki lengur þeirra vandamál.