Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skemmtilegt að fá svona risastóra viðurkenningu

Mynd: RÚV / RÚV

Skemmtilegt að fá svona risastóra viðurkenningu

28.09.2022 - 13:00

Höfundar

„Þetta var svona móment sem maður hefði aldrei getað ímyndað sér að myndi gerast hjá manni,“ segir Hildur Guðnadóttir tónskáld um að hafa tekið við Óskarsverðlaununum. Sem barn var hún í engu öðru en tónlist og segir það skemmtilegt að fá svo stóra viðurkenningu fyrir það sem hún hefur unnið að alla sína ævi.

Óskarsverðlaunahafinn Hildur Guðnadóttir segist aldrei hafa gert neitt annað en að hugsa um og spila tónlist. Hún er margverðlaunuð fyrir tónverk sín sem glæða kvikmyndir lífi og vekja ýmis hrif meðal áhorfenda. Hildur er gestur í lokaþætti Með okkar augum sem er á dagskrá RÚV í kvöld.  

Hildur segir það hafa verið ótrúlega skrítið að standa uppi á sviði og taka við Óskarsverðlaunum fyrir bestu frumsömdu tónlistina. „Þetta var svona móment sem maður hefði aldrei getað ímyndað sér að myndi gerast hjá manni,“ segir Hildur. „Ég var svona pínu stressuð en líka auðvitað ótrúlega glöð. Af því að það er svo skemmtilegt að fá svona risastóra viðurkenningu fyrir það sem maður hefur verið að gera allt sitt líf.“ 

Það fari eftir hverju verkefni fyrir sig hvort tónlistin eða kvikmyndin komi á undan. Stundum geti hún samið tónlistina áður en tökur hefjast og það þyki henni virkilega skemmtilegt. „Þá finnst mér eins og það sé meira samstarf á milli tónlistarinnar og kvikmyndarinnar, þegar maður getur leikið saman.“ Í öðrum tilfellum kemur myndin fyrst, þá getur hún séð hvað er búið að gera og semur tónlistina beint við myndina.  

Þakklátust er Hildur fyrir fólkið í lífi sínu, fjölskylduna og vini, barnið sitt og mann. „Allt þetta yndislega fólk sem ég hef verið svo heppin að fá að vera samferða, sem maður getur hlegið með og grátið með og faðmast og verið saman í lífinu,“ segir hún.  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Andri Freyr Hilmarsson ræðir við Hildi Guðnadóttur í Með okkar augum á RÚV í kvöld kl. 20.00. Þættirnir hafa vakið athygli fyrir nýstárleg og frumleg efnistök. Fólk með þroskahömlun vinnur þættina með fagfólki í sjónvarpsgerð og miðlar þannig fjölbreytileika íslensks samfélags. 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

„Það besta sem ég hef gert“

Menningarefni

„Ég hélt að þetta væri falin myndavél“

Menningarefni

„Verðum vinir alveg til æviloka“

Tónlist

Segir nei við nánast öllu