Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Drottning sviptir barnabörn prinsa- og prinsessutitlum

28.09.2022 - 13:38
Jóakim Danaprins og fjölskylda. Frá vinstri: Nikolaj prins, Marie prinsessa eiginkona Jóakims, Athena prinsessa, Jóakim Danaprins, Felix prins og Henrik prins.
Jóakim Danaprins og fjölskylda. Frá vinstri: Nikolaj prins, Marie prinsessa eiginkona Jóakims, Athena prinsessa, Jóakim Danaprins, Felix prins og Henrik prins. Mynd: Steen Brogaard - Kongehuset.dk
Börn Jóakims Danaprins missa konunglega titla sína sem prins og prinsessa um áramót. Danska ríkisútvarpið segir Margréti Þórhildi drottningu hafa tjáð hirðinni þetta í morgun. Börnin fjögur, þau Felix, Nikulás, Hinrik og Aþena, fá þó að halda aðalstitlum sínum sem greifar og greifynja af Monpezat.

Í tilkynningu hirðarinnar segir að þó þau missi konunglega titla sína haldi þau sínum stað í erfðaröð krúnunnar. Þá segir að þetta sé í samræmi við ákvarðanir annarra hirða undanfarin ár. Drottningin segist með þessu vilja auðvelda barnabörnum sínum að móta eigin framtíð án kvaðanna sem fylgja opinberum skyldustörfum dönsku konungsfjölskyldunnar.

Alexandra greifynja, barnsmóðir Jóakims og fyrrverandi eiginkona hans, lýsir furðu yfir ákvörðuninni við danska dagblaðið BT. Hún segir ákvörðunina koma eins og þrumu úr heiðskíru lofti til fjölskyldunnar. Börnunum líður eins og það sé búið að útskúfa þeim, og skilja ekkert í því hvers vegna titlarnir eru teknir frá þeim. Alexandra segir við BT að Jóakim prins og María prinsessa deili þessum skoðunum hennar.

Jakob Steen Olsen, sérfræðingur Berlingske í málefnum konungsfjölskyldunnar, segir viðbrögð Alexöndru einsdæmi. Sjaldgæft sé að ákvarðanir drottningar séu ræddar opinberlega. Rétt eins og greifynjan furðar hann sig hins vegar á ákvörðun hirðarinnar, sérstaklega í ljósi þess að ríkið hætti að greiða uppihald þeirra fyrir sex árum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV