Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Umboðsmaður minnir Dag á fyrirheit um ókeypis í Strætó

27.09.2022 - 16:34
Mynd með færslu
Salvör Nordal, umboðsmaður barna. Mynd: RÚV
Bæjarstjórar þeirra sveitarfélaga sem eiga Strætó og borgarstjórinn í Reykjavík hafa hunsað erindi sem umboðsmaður barna sendi í desember og snerist um hækkun á árskorti fyrir ungmenni í Strætó úr 25 þúsund krónum í 40 þúsund krónur. Á sama tíma lækkaði mánaðarkort fyrir fullorðna. Umboðsmaður minnir borgarstjóra á fögur fyrirheit nýs meirihluta; að það eigi að vera frítt í Strætó fyrir öll grunnskólabörn.

Umboðsmaður óskar eftir skýringum á hvort lagt hafi verið mat á hvaða áhrif hækkun á árskortinu hefði á börn sem hún snerti hvað mest; börn sem byggju við fátækt og erfiðar félagslegar aðstæður. 

Jafnframt var óskað eftir að öll sveitarfélögin sem eiga Strætó rökstyddu þessa hækkun á nauðsynlegri þjónustu fyrir börn. Þetta væru enda allt sveitarfélög sem hefðu lýst því yfir að þau væru barnvæn.

Í sérstöku bréfi til Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra, minnir umboðsmaður á að í samstarfssáttmála nýs meirihluta standi að strætósamgöngur eigi að verða ókeypis fyrir börn á grunnskólaaldri. Hins vegar hafi hvorki komið fram hvenær eigi að ráðast í þessar breytingar né með hvaða hætti. Þó hafi verið tilgreint sérstaklega að þetta ætti að vera með fyrstu aðgerðunum sem ráðast ætti í. 

Umboðsmaður spyr borgarstjóra hvort borgin ætli að beita sér fyrir því í samstarfi við önnur sveitarfélög að gjaldtaka í Strætó fyrir öll börn á grunnskólaaldri, óháð búsetu, verði felld niður. Umboðsmaður áréttar í báðum bréfum að stjórnvöldum beri skylda til að veita embættinu allar þær upplýsingar sem það telji nauðsynlegar.

Rekstur Strætó hefur verið í járnum að undanförnu. Félagið tapaði 600 milljónum fyrstu sex mánuði ársins og áætlanir gera ráð fyrir að tapið geti numið einum milljarði á þessu ári. Tilkynnt var í dag að stakt fargjald í Strætó myndi hækka 1. október.