Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Stórtjón en umfangið á enn eftir að skýrast

27.09.2022 - 09:38
Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RÚV
Miklar skemmdir urðu á slökkvistöðinni á Reyðarfirði í ofsaveðri um helgina. Þá urðu skemmdir á álverinu og skemmum sem standa nærri því. Mörg hús í bænum skemmdust einnig. Talsvert tjón varð á Bragganum af stríðsminjasafninu. Flest bendir til að það sé ónýtt.

„Alveg síðan um hádegi í [í fyrradag] hefur verið hér aftakaveður, mikill vindur, sem að hefur ollið miklu tjóni um allt sveitarfélagið og sérstaklega hér á Reyðarfirði en það hefur ekki verið viðlit til að fara hér út og gera nokkurn skapaðan hlut en nú er að lægja vonandi og þá munu menn fara og átta sig betur á þessu,“ sagði Þórður Vilberg Guðnason, upplýsingafulltrúi hjá Fjarðabyggð í samtali við fréttastofu í gær.

Mikið hreinsunarstarf fyrir höndum

Dómsmálaráðherra hitti lögreglu og björgunarsveitarfólk á skaðasvæðunum í gær ásamt fulltrúum almannavarna. Hann segist munu gefa skýrslu um stöðu mála á ríkisstjórnarfundi í dag, þriðjudag.

„Það verður að koma í ljós hver þörfin verður en að sjálfsögðu hefur ríkisstjórnin sýnt það að hún bregst auðvitað við í svona tilvikum og ég tel það bara skyldu mína sem ráðherra þessara málaflokka að koma hér og kynna mér aðstæður og hitta fólkið sem hefur lent í þessu öllu saman.“

Björgunarsveitir fyrir austan höfðu í nægu að snúast. Hjalti Þórarinn Ásmundsson hjá björgunarsveitinni Ársól á Reyðarfirði segir sveitina hafa sinnt um 50-60 útköllum á sunnudag og tíu í gær, mánudag. Þegar veðrinu sloti verði nóg að gera við að hreinsa upp.

„Það er mikið tjón hérna sérstaklega á húsum og eignum sem fólk á, margir kofar búnir að springa, tré í görðum búin að rifna upp og fleira,“ segir Hjalti. Hann man ekki eftir viðlíka veðri.

Ríkislögreglustjóri aflýsti hættustigi almannavarna í morgun í samráði við lögreglustjóra á Austurlandi og Suðurlandi.  Engar veðurviðvaranir eru í gildi.

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV