Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir skemmdarverk hafa verið unnin á gasleiðslunum

27.09.2022 - 18:31
Danish Prime Minister Mette Frederiksen attends a press meeting with NATO Secretary General Jens Stoltenberg, at the Kastellet in Kommandantgaarden, Copenhagen, Denmark, 19 May 2022.
 Mynd: EPA
Forsætisráðherra Danmerkur sagði á blaðamannafundi á sjöunda tímanum að skemmdarverk hefðu verið unnin á Nord Stream-gasleiðslunum í Eystrasalti.

Tveir sprengjuhvellir mældust á sænskum jarðskjálftamælum neðansjávar skömmu áður en leki fannst á þremur stöðum á Nord Stream gasleiðslunum, sem liggja frá Rússlandi, undir Eystrasaltið og til Þýskalands. Jarðskjálftafræðingur segir að enginn vafi leiki á að þetta hafi verið sprengingar.

Fyrri hvellurinn olli skjálfta að stærð 1,9 og sá seinni að stærð 2,3. Tilkynnt var um lekann í gær eftir að skip sem sigldu um svæðið höfðu orðið vör við ummerki á yfirborði sjávar. Þar höfðu myndast gasbólur sem voru um hundrað metrar í þvermál. Lekinn er sagður hafa valdið fordæmalausum skemmdum. Björn Lund jarðskjálftafræðingur segir ekki nokkurn vafa leika á að sprengingar hafi valdið lekanum, í viðtali við SVT. Þetta líti alls ekki út eins og jarðhræringar. Mælingar sem hafa staðsett upptök kippanna sýna að hnitin eru á sama svæði og skemmdirnar á gasleiðslunum. 

Lund segist telja að mikið magn sprengiefna hafi þurft til að framkalla sprengingar af þessari stærðargráðu, líklega meira en hundrað kíló af dínamíti.

Stjórnmálaleiðtogar voru varfærnir í yfirlýsingum í upphafi en það virðist vera að breytast. Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði á blaðamannafundi á sjöunda tímanum að skemmdarverk hefðu verið unnin á gasleiðslunum. Hún sagði að ekki tækist að stöðva lekann í að minnsta kosti viku. Mette tók það fram að þar sem þetta gerðist úti á rúmsjó væri ekki hægt að tala um árás á Danmörku og öryggi ríkisins væri ekki ógnað. 

Klaus Mosegaard, danskur prófessor í jarðeðlisfræði, segir í viðtali við DR að krafturinn hafi verið á pari við stóra sprengju úr seinni heimsstyrjöldinni. Þýsk stjórnvöld eru sögð rannsaka málið sem árásir.

Hér er hægt að skoða mælingar NORSAR, norsks rannsóknarseturs, á sprengingunum.