„Nú á ég frí restina af lífinu“

Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson / Torvald Gjerde

„Nú á ég frí restina af lífinu“

27.09.2022 - 10:54

Höfundar

Organistinn og kórstjórnandinn Torvald Gjerde hefur skipað stóran sess í tónlistarlífi Austurlands í þrjá áratugi. Hann fluttist til Stöðvarfjarðar árið 1993 og stendur nú á tímamótum því hann lét af starfi organista Egilsstaðakirkju sem hann hefur gegnt í rúm 20 ár.

Torvald Gjerde hefur í tímans rás starfað sem tónlistarkennari, orgelleikari og kórstjórnandi. Nú stendur Torvald á tímamótum enda fór hann á eftirlaun í byrjun ágúst. „Ég segi stundum að nú á ég frí restina af lífinu,“ og lífið fram undan sé óskrifað blað. Rætt var við Torvald Gjerde í Sögum af landi á Rás 1.

Byrjaði ungur að útsetja lög

Torvald fæddist á norsku eyjunni Halsnøy, mitt á milli Björgvinjar og Stafangurs. Hann heillaðist snemma af tónlist og segir að hún hafi verið eins og segull sem dró hann að sér. Hann hafði engan aðgang að tónlistarkennslu sem barn og kenndi sér sjálfur að spila á gamalt orgel sem amma hans átti. Hann lét skort á menntun þó ekki stoppa sig. 

„Ég byrjaði snemma að útsetja lög. Byrjaði 13 ára og hef haldið því áfram síðan þá og hef gaman af. Það er svolítið púsluspil. Og ég byrjaði strax að útsetja fjórraddað og í kórastíl.“ Leiðin lá síðan í háskóla í Þrándheimi þar sem hann lærði á pípuorgel sem aðalhljóðfæri og útskrifaðist svo sem tónlistarkennari. 

Flytur rúmlega fertugur til Íslands

Eftir námið starfaði Torvald sem tónlistarkennari í Noregi í mörg ár. Hann kynntist íslenskri konu og þau bjuggu í Noregi þangað til þau ákváðu að breyta til og flytja til Íslands. Þetta var 1993 og þau fluttu til Stöðvarfjarðar þar sem Torvald hafði verið ráðinn skólastjóri tónlistarskólans. „Svo var ég líka organisti með fram því. Og hún var líka tónlistarkennari í tónlistarkólanum. Þetta var bæði skemmtilegur staður, skemmtilegt svæði og skemmtilegt starf sem hentaði mér vel,“ rifjar hann upp. 

Stofnaði kammerkór við Egilsstaðakirkju

Leið þeirra lá næst til Egilsstaða þegar Torvald tók við starfi organista Egilsstaðakirkju árið 2001. Þar stofnaði hann kammerkór sem hefur fengist við fjölmörg verkefni. „Við höfum flutt nær 30 minni og stærri kórverk og hátt á annað hundrað önnur lög.“ Eftirminnilegustu verkefnin séu Jólaóratorían eftir Bach og Messías eftir Händel sem kammerkórinn flutti ásamt kirkjukór Egilsstaðakirkju. 

Mynd með færslu
 Mynd: Kammerkór Egilstaðakirkju - Facebook

Fær kórinn lánaðan í síðasta verkefnið

Nú þegar Torvald er kominn á eftirlaun hættir hann sem stjórnandi kórsins. Hann á þó eitt verkefni eftir og segist fá kórinn lánaðan í það, æfingar og upptökur á 21 þjóðlagi, norskum og íslenskum lögum sem Torvald útsetti sjálfur. 

„Og akkúrat þessi eru einhvers konar þjóðareign sem fólk hefur haft gaman af í gegnum tíðina og skipt máli fyrir fólk, bæði í vinnu og frítíma, og ekki síst til skemmtunar og voru mikilvæg sem danslög fyrr á tímum,“ segir Torvald um þjóðlögin sem kórinn æfir nú fyrir upptökur. 

Margt fram undan

Nú taka ný verkefni við í lífi Torvalds. Til að mynda stefnir hann á að flytja nokkur hunduð lög, sem hann hefur útsett, yfir á tölvutækt form. Svo er hann byrjaður að mæta á kirkjukórsæfingar og nýtur þess að geta sjálfur sungið með kórnum, í stað þess að vera í stjórnandahlutverkinu. 

„Svo mun ég dvelja miklu meira í Noregi. Þar á ég til dæmis lítinn trébát sem ég get róið og siglt. Ég get þá farið meira á sjó og veitt fisk. Svo hef ég líka áður fyrr verið mikið að vinna í kortavinnu, að teikna kort, og er að lagfæra kort af skóginum heima, á heimaeyjunni. Það hef ég mjög gaman af,“ segir hann og bætir við að allt sé opið enn þá og margt sem hann getur tekið sér fyrir hendur.

Rætt var við Torvald Gjerde í Sögum af landi á Rás 1. Hér má hlusta á þáttinn í heild sinni í spilara RÚV. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Jólaóratorían vekur jólaandann