Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Breska pundið orðið 20 krónum ódýrara en í byrjun árs

27.09.2022 - 18:48
Mynd: EPA-EFE / EPA
Markaðir hafa misst trú á að breska ríkið geti staðið við skuldbindingar sínar, segir prófessor í hagfræði. Pundið hefur hríðfallið eftir að ríkisstjórnin kynnti nýjar efnahagsaðgerðir. Breska pundið er nú 20 krónum ódýrar en það var í byrjun þessa árs.

Þegar breska ríkisstjórnin kynnti nýjar efnahagsaðgerðir á föstudag féll pundið strax um 2% og við opnun markaða í gær var það orðið lægra gagnvart dollaranum en nokkru sinni áður. Á sama tíma í fyrra var gengi pundsins gagnvart dollaranum nálægt 1,4. Það hefur svo lækkað hægt og bítandi en tekur svo dýfu á föstudag og um hádegisbil í dag var það orðið um 1,08. Og fyrir okkur Íslendinga er pundið 20 krónum ódýrara en í byrjun þessa árs. „Það eru tvær ástæður fyrir þessu. Í fyrsta lagi það að allir gjaldmiðlar hafa verið að falla gagnvart dollaranum undanfarið og pundið þar með talið,“ segir Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics.

Breska ríkið þegar mjög skuldsett

Hin ástæðan er nýjar efnahagsaðgerðir stjórnvalda. „Það sem breska ríkisstjórnin tilkynnti á föstudaginn var það að þeir myndu lækka skatta töluvert mikið en myndu halda áfram á eyða jafn mikið út úr ríkissjóði. Þannig að ríkisútgjöld eru föst og þess vegna þarf ríkissjóður að taka peninga að láni til að borga fyrir þessar skattalækkanir og breska ríkið er nú þegar mjög skuldsett,“ segir Jón. Hann segir markaðinn hafa vantrú á að ríkið geti staðið undir þessum skuldbindingum.

epa10200861 Britain's Prime Minister Liz Truss (L) departs 10 Downing Street ahead of a statement in parliament, in London, Britain, 23 September 2022. Chancellor of the Exchequer Kwasi Kwarteng will make a fiscal statement announcing a radical shift in the UK's economic policy.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Efnahagspakki ríkisstjórnar Liz Truss hefur fallið í grýttan jarðveg.

Efnahagsaðgerðirnar hafa fallið í grýttan jarðveg, jafnvel innan Íhaldsflokksins. „Það sem menn eru hvað hræddastir við í flokknum er það að vextir hækki. Það er búist við því að vextir geti farið allt upp í sex, sjö prósent í lok ársins eða í byrjun þess næsta,“ segir Jón. Verkamannaflokkurinn sér leik á borði. Keir Starmer, leiðtogi flokksins, boðaði aðrar lausnir á ársþingi flokksins í dag, nýtt fyrirtæki sem framleiðir hreina orku. „Af því að það er gott fyrir störfin, af því það þýðir hagvöxt, af því það felur í sér sjálfstæði í orkumálum frá harðstjórum eins og Pútín. Já kæra flokksþing: Bresk orka verður í almannaeigu ,“ sagði leiðtoginn og uppskar fyrir vikið dynjandi lófatak flokksfélaga.