Þegar breska ríkisstjórnin kynnti nýjar efnahagsaðgerðir á föstudag féll pundið strax um 2% og við opnun markaða í gær var það orðið lægra gagnvart dollaranum en nokkru sinni áður. Á sama tíma í fyrra var gengi pundsins gagnvart dollaranum nálægt 1,4. Það hefur svo lækkað hægt og bítandi en tekur svo dýfu á föstudag og um hádegisbil í dag var það orðið um 1,08. Og fyrir okkur Íslendinga er pundið 20 krónum ódýrara en í byrjun þessa árs. „Það eru tvær ástæður fyrir þessu. Í fyrsta lagi það að allir gjaldmiðlar hafa verið að falla gagnvart dollaranum undanfarið og pundið þar með talið,“ segir Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics.
Breska ríkið þegar mjög skuldsett
Hin ástæðan er nýjar efnahagsaðgerðir stjórnvalda. „Það sem breska ríkisstjórnin tilkynnti á föstudaginn var það að þeir myndu lækka skatta töluvert mikið en myndu halda áfram á eyða jafn mikið út úr ríkissjóði. Þannig að ríkisútgjöld eru föst og þess vegna þarf ríkissjóður að taka peninga að láni til að borga fyrir þessar skattalækkanir og breska ríkið er nú þegar mjög skuldsett,“ segir Jón. Hann segir markaðinn hafa vantrú á að ríkið geti staðið undir þessum skuldbindingum.