Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bráðfyndin frásögn af missi og mannlegum breyskleika

Mynd: Tjarnarbíó / Tjarnarbíó

Bráðfyndin frásögn af missi og mannlegum breyskleika

27.09.2022 - 12:48

Höfundar

Hið stórfenglega ævintýri um missi var frumsýnt í Tjarnarbíói núna um helgina. Verkið segir frá því þegar Gríma Kristjánsdóttir leikkona missti báða foreldra sína með stuttu millibili. Lýst er ævi hennar fram að andláti þeirra og hinu góða og slæma sem einkenndi uppeldið. Eva Halldóra Guðmundsdóttir, leikhúsgagnrýnandi Víðsjár, rýnir í verkið.

Eva Halldóra Guðmundsdóttir skrifar:

Öll erum við marglaga manneskjur. Eigum okkar frábæru hliðar og allar þær slæmu. Sama hver þú ert er hægt að finna eitthvað frábært í þínu fari en því miður er álíka jafn auðvelt að benda á eitthvað ömurlegt. Sumum þætti það mögulega auðveldara að sjá það verra. En af einhverjum ástæðum eigum við það til að setja fólk annaðhvort í guðatölu eða afskrifa það. Manneskjan á það til að vera pólaríseruð. Annaðhvort er eitthvað gott eða vont, fyndið eða leiðinlegt, viðkvæmt eða hart. Tvíhyggjan gerir það að verkum að stundum er strembið að skilja það sem er „gott/vont“.

Hið stórfenglega ævintýri um missi var frumsýnt í Tjarnarbíói núna um helgina. Verkið segir frá því þegar Gríma Kristjánsdóttir leikkona missti báða foreldra sína með stuttu millibili, lýsir ævi hennar fram að andláti þeirra og hinu góða og slæma sem einkenndi uppeldið. Frásögn hennar er með óhefðbundnum hætti þar sem Gríma leikur sjálfa sig og svo trúðinn Jójó. Áhorfendur fá að kynnast fjölskyldumeðlimum Grímu og samskiptamynstrum þeirra. Gríma fær Jójó til að segja sögu sína þótt Gríma brjóti sjálf upp frásögnina við og við til að halda trúðnum Jójó á mottunni.

Skíthrædd við dauðann

Hún lætur Jójó um það að segja frá þeim þrautum sem hún sjálf á erfitt með að tjá. Gríma elst upp á heldur venjulegu íslensku heimili. Hún á móður og föður sem vinna sem kennari og með unglingum í vanda. Faðir Grímu var í eldra lagi þegar hún fæðist, eða sextíu og þriggja ára. En eins og hún segir sjálf var hún skíthrædd við dauðann í uppvextinum. Hún óttaðist allt sitt líf að faðir hennar gæfi upp öndina sökum aldurs.

Aldagömul trúðahefð

Þegar við heyrum orðið trúður er líklegt að við sjáum fyrir okkur McDonalds-trúðinn, einhvern lufsulegan sirkústrúð með appelsínugula plasthárkollu eða jafnvel hryllilega veru sem heldur á blóðugum hníf. Því kann að hljóma einkennilega að Gríma sé að segja sögu sína í gegnum trúð sem hún sjálf leikur. Því ætla ég aðeins að útskýra áður en lengra er haldið. Trúðatæknin sem Gríma notast við í sýningunni tengist alls ekkert trúðunum sem ég lýsti hér áðan, heldur er hún gömul hefð sem á rætur sínar að rekja í Commedia dell' arte. Í BA-ritgerð sviðshöfundarins Andreu Elínar Vilhjálmsdóttur segir: „Uppruni Commedia dellʼ arte er ekki skjalfestur í sögubókunum og tilgátur um tilurð þessa leiklistarforms er á reiki en greinilega má sjá að það er nátengt gömlu grísku og rómversku gamanleikjunum.“ Eins og Andrea segir þá voru þetta sögur, hlutverk og tækni sem gekk í erfðir. Þjónarnir Zanni og Harlequin í Commedia eru taldir vera forfeður trúðanna sem við þekkjum nú á dögum.

Rafael Bianciotto, sem er jafnframt leikstjóri hins stórfenglega ævintýris um missi, hefur lengi kennt þessa trúðatækni hér á landi jafnframt því að hafa leikstýrt hinum ýmsu trúðasýningum á Íslandi. Í Commedia dell' arte er mikið lagt upp úr spuna og segir Andrea Elín í ritgerð sinni að þar sé „framvinda sögunnar að mestu leyti háð leikaranum en ekki fyrir fram skrifuðu leikriti. Lítið er um texta, fyrir utan lausan söguþráð, og formið gefur leikurunum mikið frelsi til þess að spinna svo lengi sem söguþráðurinn heldur sér.“ Það sama mætti segja um hið stórfenglega ævintýri um missi. Það er greinilegt að sýningin er lifandi og mikið um spuna. Rafael hefur tekist vel að leiða hópinn í að setja saman fasta punkta og draga fram augnablik úr ævi Grímu sem heldur frásögninni gangandi, en þegar Gríma bregður sér í hlutverk trúðsins Jójó tekur hún við og leikur sér innan rammans.

Bráðfyndið verk um alvarleg efnistök

Gríma er með fallega nærveru á sviði og realísk. Allt annað en Jójó, trúðurinn hennar. Hún er prakkaraleg og virðist áhorfandanum til alls vís. Gríma byrjar sýninguna á að segja að það sé margt sem hún hafi ekki getað rætt eftir dauða foreldra sinna. Það hafi myndast stífla innra með henni og hún því ekki getað unnið fyllilega úr þeim tilfinningum sem fylgt hafi þessu mikla áfalli. Dauði hljómar ekki eins og glaðlegt viðfangsefni og því kann að koma ykkur hlustendum á óvart að ég hafi skemmt mér konunglega á sýningunni. Verkið er bráðfyndið og Jójó kann svo sannarlega að kippa manni út úr dramatíkinni og gera grín að því að Gríma vill ræða við okkur um missi. Jójó flakkar með áhorfandann fram og til baka í minningum Grímu úr æsku og segir okkur frá öllu því sem uppeldið skilaði. Jójó bregður sér í hlutverk foreldra Grímu og vekur það mikla kátínu hjá áhorfandanum að sjá Grímu leika Jójó sem svo leikur Grímu í æsku í samskiptum við foreldra sína. Gríma veldur hlutverki Jójó vel og er gaman að sjá hvað áhorfendur verða henni nánir. Þórður Gunnarsson sér um tónlistina og bregst skemmtilega við öllum skrípalátum Jójó og býr til lifandi hljóðmynd á sviðinu. Þórður gefur verkinu skoplegan hljóm og greinilegt að honum þykir Jójó spaugileg. Einnig var skemmtilegt á sýningunni að ljósahönnuðurinn Arnar Ingvarsson var með sterka viðveru þar sem hann þurfti að gera eins og Þórður, að bregðast við því sem Jójó dytti í hug að gera.

Einföld og uppfull af mikilvægum augnablikum

Sýningin er stutt og dúlluleg í alla staði en orkan í verkinu var þó á reiki. Frásögn Jójó var skemmtileg en eins og áður sagði þá er sýningin að mörgu leyti spuni. Trúðurinn leikur sér nefnilega að aðstæðum hverju sinni. Sama hvort það sé blikk í ljósabúnaði, áhorfandi sem bregður sér á klósettið eða hlátur frá áhorfendaskara. Trúðurinn er í augnablikinu, elskar mistök, ritskoðar sig ekki og segir allan sannleikann. Í því felast töfrar og mega áhorfendur búast við hverju sem er frá Jójó. Því hefði Gríma mátt vera fastmótaðra hlutverk. Þó svo að Gríma sé að leika sjálfa sig og bregðast við því sem Jójó lætur út úr sér þá vantaði stundum eitthvað upp á í minningaflakkinu eða samhengi við aðstæður. Einföld leikmyndin er í höndum Evu Bjargar Harðardóttur og nýttist vel í frásögninni. Tveir upplýstir og afmarkaðir hringir eru á sviðinu og lék Gríma eða Jójó sér að því að nota hringina til að stíga inn og út úr minningum. Upplifunin var þó sú að sums staðar vantaði jarðtengingu í verkið á meðan annars staðar fór hún á flug og greip okkur með. Einnig er sagan frekar einföld þótt hún sé uppfull af mikilvægum augnablikum. Sum atvik í ævi Grímu tóku stærra pláss en sagan þurfti á að halda, á meðan önnur fengu minna og við skilin eftir með spurningar. Það breytir því ekki að sýningin er hrífandi og virkilega fyndin á köflum.

Heiðarlegt tilfinningalegt ferðalag

Á okkar fyrsta æviskeiði lærum við að fara eftir ósögðum reglum samfélagsins, verðum meðvirk og skömmumst okkar fyrir það eitt að vera ekki eins og hinir - en trúðurinn er eins og barn. Hann segir hlutina hreint út, er forvitinn, reynir ekki að ganga í augun á okkur og skefur ekki utan af því þegar eitthvað er erfitt eða leiðinlegt. Trúðurinn getur því talað um slæmu hliðar manneskjunnar án þess að neitt illt búi að baki. Gríma sýnir okkur alla söguna með því að segja okkur frá uppeldi sínu í gegnum Jójó. Jójó og Gríma sýna okkur á einlægan hátt að lífið er ekki annaðhvort/eða heldur margs konar. Fólk hefur alls konar hliðar að geyma og ef þú elskar einhvern þá elskar þú þær allar. Elskar ekki bara engilinn og hatar djöfulinn. Ef þú ert að leita þér að sýningu sem er marglaga myndlíking um mannlega þjáningu eða troðfull af dulkóðuðum pólitískum skilaboðum þá er þetta ekki sýningin fyrir þig. En ef þú ert til í einlæga frásögn af missi, mannlegum breyskleika og tilbúinn í heiðarlegt tilfinningalegt ferðalag mæli ég með að þú skellir þér í Tjarnarbíó á hið stórfenglega ævintýri um missi.

Tengdar fréttir

Leiklist

Hvunndagsharmur ósýnilegu konunnar

Leiklist

Má hæðast að hverju sem er?

Leiklist

Lágstemmd sýning með mikilvæg skilaboð