Ekki hægt að sækja bætur vegna foks á lausum jarðefnum
Steingrímur segir ekki gera ráð fyrir að fá tjónið bætt frá tryggingafélögum, þar sem þeir bjóði ekki upp á tryggingar gegn foki á lausum jarðefnum. Hjalti Þór Guðmundsson, yfirmaður ökutækjatjóna hjá Sjóvá, telur líklegt að fleiri óski eftir bótum vegna tjóns á næstu dögum, en það sé allur gangur á hvort tjón á bílum eftir óveðrið fáist svo bætt eða ekki. Almenn regla markaðarins sé þó að fok á lausum jarðefnum sé undanþegið bótaskyldu.
„Það er líka undir eigendum komið að forða eigum sínum í skjól þegar veður er svona. En svo eru náttúrulega aðrir hlutir sem eru bótaskyldir, ef það eru húsplötur eða girðingar eða tré eða eitthvað sem falla á bíla þá er það bótaskylt. En svo náttúrulega skoðum við bara hvert mál fyrir sig, hvað fýkur í bílinn og á hvaða staðsetningu og hvernig það er á hverjum stað“ segir yfirmaður ökutækjatjóna hjá Sjóvá.
Hluti ferðamannanna voru tryggðir hjá bílaleigu Akureyrar fyrir slíku tjóni, en ljóst er að skemmdirnar verða nokkuð högg fyrir fjárhag fyrirtækisins.
Ætla að skoða hvort keyrt var inn í fárviðrið í óleyfi
Talsmaður Vegagerðarinnar sagði í samtali við fréttastofu í gær að líklega hefði hluti þeirra erlendu ferðamanna sem sátu fastir á Möðrudalsöræfum í veðurofsa, keyrt framhjá lokunarpóstum. En að keyra um veg þar sem öll umferð er bönnuð, getur talist til brota gegn umferðarlögum.
„Við erum með staðsetningarbúnað í bílunum okkar og getum séð hvenær þeir fóru inn á svæðin. Einhverjir voru náttúrulega bara komnir inn á svæðið og áttu kannski ekki undankomu auðið ef svo má segja“ segir forstjóri Bílaleigu Akureyrar. „En við vitum það alveg að það eru dæmi um það að menn hafi virt þessar lokanir að vettugi, ekki bara í þetta skiptið heldur í fyrri tíð. Það þarf náttúrulega bara að skoða hvert tilfelli fyrir sig í þeim efnum“ segir Steingrímur.