Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Virðist sjá fyrir endann á hækkun fasteignaverðs

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Nú virðist sjá fyrir endann á þeim miklu verðhækkunum sem einkennt hafa íbúðamarkaðinn á Íslandi nánast frá upphafi heimsfaraldurs snemma árs 2020. Árshækkun á verði íbúða hefur þó ekki verið meiri frá árinu 2006.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka sem birt var í morgun. Sérfræðingar bankans telja að raunverðshækkun íbúða um 11,6% á þessu ári sé þegar að mestu komin fram, hækkunin verði um 0,8% á næsta ári og verð standi í stað árið 2024.

Rólegri tíð fram undan á fasteignamarkaði

Útlit er talið fyrir að rólegra verði á íbúðamarkaði næsta ár en verið hefur undanfarið. Talning Samtaka iðnaðarins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar bendir til fjöldi nýrra íbúða sé senn tilbúinn til sölu sem anni þá uppsafnaðri þörf.

Viðsnúningur virðist þegar hafinn varðandi verð fasteigna, sem hækkaði minna í júlí en mánuðina á undan. Árshækkun mælist þó um 25 af hundraði en vísitala íbúðaverðs lækkaði milli mánaða í ágúst, fyrsta sinni frá því í nóvember 2019.

Eftirspurn eftir húsnæði hefur minnkað, sem sérfræðingar Íslandsbanka rekja helst til aðgerða Seðlabankans, bæði vaxtahækkana og hertra lánaskilyrða. Enn ríkir þó talsverð spenna enda framboð íbúða mjög lítið í sögulegu samhengi, fjöldi íbúða selst enn yfir ásettu verði og sölutími almennt stuttur.

Skammtímasveiflur ekki útilokaðar

Til lengri tíma er því spáð að íbúðaverð haldist í hendur við annað verðlag, þótt sveiflur, jafnvel verðlækkun, til skemmri tíma séu ekki útilokaðar. Íbúðamarkaður í öðrum löndum hefur kólnað hraðar en hér enda minni skortur á eignum og lýðfræðilegar breytingar auka ekki eins eftirspurn.

Í þjóðhagsspá Íslandsbanka kemur einnig fram að ferðaþjónusta hefur rétt verulega úr kútnum eftir þrautagöngu kórónuveirufaraldursins, atvinnuleysi er orðið svipað og fyrir faraldur og hagvöxtur sá mesti í 15 ár.

Eins eru sagðar horfur á frekari styrkingu krónunnar á komandi misserum. Heldur telja þó höfundar þjóðhagsspár að hægja muni á hagvexti og einkaneyslu eftir hraðan vöxt.