Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Það er stór hluti Ítala sem kaus hana sannarlega ekki“

26.09.2022 - 19:47
Michele Rebora
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Stjórnmálafræðingur segir það ólíklegt að Giorgia Meloni, líklegur næsti forsætisráðherra Ítalíu, nái að sætta ólíkar fylkingar og sameina Ítali.

Giorgia Meloni sló hófsaman tón í sigurræðu sinni í nótt, sem stingur í stúf við kosningabaráttu hennar. Bandalag hægri flokka sem hún leiðir virðist ætla að ná meirihluta í báðum deildum ítalska þingsins. Michele Rebora stjórnmálafræðingur segir að ítölsk stjórnvöld hafi lengi verið klofin. Þessar kosningar séu því ekki einsdæmi, en kosningaþátttaka hafi þó verið sögulega lág, um 63 prósent. „Sumsstaðar alveg niður í 50 prósent. Þannig að það er stór hluti Ítala sem kaus hana sannarlega ekki.“

Michele segir að þessa hægri sveiflu í ítölskum stjórnmálum megi hugsanlega skýra með viðvarandi kreppuástandi á Ítalíu. „Löng niðursveifla í efnahagskerfinu, mikill straumur innflytjenda, ákveðið úrræðaleysi sem hefur ríkt og óánægja meðal almennings með svör stjórnmálamanna.“

Michele telur að ný stjórn muni marka breytingar í innflytjendamálum á Ítalíu. Meloni hefur boðað strangari stefnu í þeim málum og Michele telur að Ítalía muni tala á þeim nótum gagnvart Evrópusambandinu. „Það eru eiginlega engar líkur á því að Ítalía fari úr sambandinu. Það er náttúrulega eitt af stofnendum þess og eitt af stóru ríkjunum í sambandinu.“

Hann telur hins vegar að samningsstaðan gagnvart Evrópu muni breytast. „Meiri áhersla á þjóðríki heldur en oft áður.“