Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Óttast enn meiri hörku gegn mótmælendum í Íran

26.09.2022 - 21:00
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Íranir sýna ótrúlegt hugrekki í mótmælum sem enn standa yfir í landinu, enda geta þau verið upp á líf og dauða, segir Magnús Þorkell Bernharðsson prófessor í nútímasögu Miðausturlanda. Tugir hafa verið drepnir í mótmælunum og óttast er að stjórnvöld bregðist enn harðar við á næstu dögum.

Tíu daga í röð hefur fólk mótmælt á götum úti í Íran eftir að hin 22 ára Masha Amini lést í haldi lögreglu. Hún var handtekin fyrir að bera slæðu ekki rétt, þar sem að mati siðgæðislögreglunnar sást of mikið í hár hennar. Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í nútímasögu Miðausturlanda, segir mótmæli áður hafa verið ákall um afmarkaðar breytingar á kerfinu. „En núna er verið að tala um að skipta út kerfinu. Og steypa af stóli forystumönnum landsins. Orðræðan er róttækari, þetta eru almennari mótmæli heldur en oft áður.“

epa10203990 Iranian refugees, women and men living in Greece hold placards during a protest over the death of  young Iranian woman Mahsa Amini, who died last week after being arrested in Tehran for not wearing her hijab appropriately, in Athens, Greece, 24 September 2022. Iran has faced many anti-government protests following the death of Mahsa Amini, a 22-year-old Iranian woman, who was arrested in Tehran on 13 September by the morality police, a unit responsible for enforcing Iran's strict dress code for women. She fell into a coma while in police custody and was declared dead on 16 September, with the authorities saying she died of a heart failure. Her death has triggered protests in various areas in Iran and around the world.  EPA-EFE/ALEXANDROS BELTES
 Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Boðað hefur verið til samstöðumótmæla víða um heim.

Mótmælin hófust í heimahéraði Amini en hafa nú náð til nær allra héraða í Íran. „Þessi barátta sem hefur verið háð, þetta er þvílíkt hetjuleg barátta, það er með ólíkindum hvað fólk er að gera til þess eins að mótmæla ákveðnum stefnumálum og kerfinu í Íran.“ Magnús segir að þátttaka í mótmælum í Íran geti verið lífshættuleg. „Og sérstaklega fyrir konur ef þær eru að mótmæla með því að taka af slæðuna og þess háttar þá er það mjög sýnilegt og augljóst. En það er greinilega til marks um það hversu örvæntingin er mikil.“

Óttast enn meiri hörku 

Írönsk yfirvöld segja 41 hafa látist í mótmælunum en mannréttindasamtök segja að þau séu mun fleiri í raun. Magnús Þorkell segir erfitt að meta hvað gerist næst en írönsk stjórnvöld hafi hingað til ekki hikað við að beita öllum tiltækum ráðum til þess að þagga niður í mótmælendum. „Aldrei þegar svona mál hafa komið upp - jafnvel þegar verið að tala um tæknilegar útfærslur eins og hversu mikið eigi að niðurgreiða brauð eða hveiti í landinu - þá hafa þau aldrei viljað sýnast vera að semja við mótmælendur,“ segir Magnús Þorkell. 

Hann hefur rætt við kollega og vini í Íran sem óttast mjög hvað næstu dagar og vikur bera í skauti sér. Frekar en að leiða af sér breytingar gætu áframhaldandi mótmæli orðið til þess að stjórnvöld bregðist enn harðar við.