Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Karlmenn fastir í viðjum karlmennskunnar

Mynd: Norden / Norden

Karlmenn fastir í viðjum karlmennskunnar

26.09.2022 - 12:30

Höfundar

Svíar tilnefna Löpa varg og Den dagen den sorgen til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Verkin fjalla bæði um karlmenn sem komnir eru yfir miðjan aldur og glíma við stöðu sína í samfélaginu.

Tilnefningar Svíþjóðar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs eru að þessu sinni tvær stuttar skáldsögur um roskna karlmenn og karlmennsku. Þetta eru bækurnar Löpa varg, Hlauptu vargur, eftir Kerstin Ekman og Den dagen den sorgen, Sá dagur sú sorg, eftir Jesper Larssons. Rætt var við Linu Kalmteg, gagnrýnanda og ritstjóra bókmenntaþátta á P1 í sænska ríkisútvarpinu, í Orðum um bækur á Rás 1.  

Manneskjan í náttúrunni 

Það bjuggust ekki margir við nýrri bók frá hinni goðsagnakenndu Kerstin Ekman sem brátt verður níræð. Hún hefur sent frá sér um 40 bækur og um tíu ár eru frá því að hún gaf síðast út bók. Hún hefur þó ekki setið auðum höndum heldur sent frá sér þrjú ritgerðarsöfn og látið til sín taka í baráttunni gegn loftlagsvánni. Hún hefur alla tíð verið virk í umræðunni um umgang mannsins við náttúruna og um mannréttindi og þetta hefur endurspeglast í skáldsögum hennar.  

Löpa varg, Hlauptu vargur, fjallar einmitt um samspil manns og náttúru. Ulf Norrstig er vanur veiðimaður og hefur skotið tugi varga í gegnum tíðina en mætir óvænt augnaráði vargs í skóginum við heimili sitt og þeir fylgjast svo að í gegnum söguna. Nafn aðalpersónunnar vekur upp spurningar hjá lesendum um hver sé hinn eiginlegi vargur sögunnar, er það Ulf eða úlfarnir í skóginum.  

Mynd: albertbonniersforlag.se / albertbonniersforlag.se
Lestur úr Löpa Varg

Lina Kalmsted segir Ulf frá upphafi vekja með lesendum samkennd en um leið sé hann brjóstumkennanlegur. Hún segir að hann sé mjög kunnugleg persóna. Hann hafi aðlagast hlutverki sínu sem karlmaður og lifað í samræmi við það og trúað því að hann hefði ekki um neitt annað að velja. Á efri árum finni hann hins vegar hversu þröngt stakkur karlmennskunnar er sniðinn.  

„Með Löpa varg sýnir Kerstin Ekman að hún hefur fullkomin tök á verkfæri sínu. Hver einasta setning vitnar um það vald sem höfundurinn hefur á tungumálinu.“ Úr umsögn dómnefndar. 

Kerstin Ekman er þekkt fyrir einstakan stíl sem er einfaldur, knappur og hversdagslegur í senn. Setningarnar eru stuttar en þrungnar merkingu. Lina Kalmteg segir hana átrúnaðargoð margra yngri höfunda og að ungir höfundar eigi eftir að fjalla um sömu hluti og Kerstin í framtíðinni, um manneskjuna og náttúruna og um manneskjuna í náttúrunni.  

Ofsóknaræði ofverndandi föður 

Hin bókin sem Svíar tilnefna er Den dagen den sorgen, Sá dagur sú sorg, eftir Jesper Larsson. Þetta er hans þriðja bók og það má segja að með henni hafi Larsson fyrst slegið í gegn. Hann hlaut sænsku útvarpsverðlaunin fyrir bókina, en bók Kerstinar Ekmann var einnig tilnefnd til þeirra verðlauna.  

Sögusviðið er borgin, hið manngerða samfélagslega skipulag og stigveldi sem endurspeglast á kápumyndinni sem er ljósmynd þar sem horft er inn eftir víðu röri. Að sögn Linu Kalmteg endurspeglar rörið lestrarupplifun bókarinnar þegar að höfundur teymir lesendur sína beint inn í þrönga sýn aðalpersónunnar Bengts. Hún segir Bengt þröngva fordómum sínum og minnimáttarkennd upp á lesendur en hann finnur sig illa í nýjum aðstæðum einstæðs föður unglingsstúlku. Móðirin lést fyrir nokkrum árum og Bengt ræður illa við verkefnið. Hún segir að höfundi takist þrátt fyrir fráhrindandi persónu Bengst að vekja með honum samúð, með alla sína fordóma á öllu framandi og óbilandi trú á yfirburðum karlmannsins er hann um leið brjóstumkennanlegur í einmanaleika sínum.  

„Jesper Larsson fléttar ofsóknaræði Bengts og hræðslu hans við að missa stjórnina inn í textann af miklu öryggi og án þess að forðast sára punkta. Á enn dýpra plani má einnig greina vísbendingar um þá tilfinningu föðurins að hann dugi ekki til, að hans sé ekki lengur þörf.“ Úr umsögn dómnefndar. 

Þetta er stutt skáldsaga, aðeins 130 blaðsíður, en þær eru þéttskrifaðar. Lesendur fylgja Bengt til vinnu við húsaviðgerðir en framvindan fjallar fyrst og fremst um dótturina. Melissa er 13 ára og hefur skyndilega hætt í tónlistarnámi og snúið sér að ritlist. Bengt líst ekkert á það og tekur að njósna um dóttur sína með það fyrri augum að vernda hana frá óútskýrðri utanaðkomandi ógn.  

Konur í karlægum heimi  

Lina Kalmteg segir áhugavert að skoða konurnar í þessum karlasögum, Löpa Varg og Den dagen den sorgen. Það eru karlmenn sem segja þessar sögur og við kynnumst konunum í gegnum frásagnir þeirra. Inge, eiginkona Ulfs, beinir eiginmanni sínum til betri vegar. Líf Bengts snýst svo mjög um dóttur hans að það er ekki úr vegi að segja að saga þeirra fjalli um táningsstelpu í karlægum heimi. Tal vinnufélaga Bengst um eiginkonur sínar og kærustur staðfestir hve karlægt samfélagið er en Bengt lærir ýmislegt með tímanum. Lina segir þetta því mikilvægar bækur fyrir karlkynslesendur.  

Rætt var við Linu Kalmteg í Orð um bækur á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Kínverskur geldingur og hinsegin listamaður

Bókmenntir

Einfaldar myndabækur með margslunginn boðskap

Bókmenntir

Tímanum teflt fram

Bókmenntir

Samband kynslóðanna í Færeyjum