Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hver situr uppi með tjónið?

26.09.2022 - 17:01
Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RÚV
Ljóst er að tjón sem orðið hefur af völdum veðurofsans sem gengið hefur yfir landið austan- og norðanvert er mikið. Haft var eftir formanni Björgunarsveitarinnar Ísólfs á Seyðisfirði í hádegisfréttum í dag að óveðrið væri það versta í manna minnum.

Heilu húsin eru skemmd og fjöldinn allur af bílum ónýtur. Hversu mikið tjónið er og hver situr uppi með hvað á eftir að skýrast. Fólk hefur ekki í öllum tilfellum komist út að meta stöðuna almennilega því veðrinu er sums staðar rétt að slota núna.

Eitt er þó skýrt, náttúruhamfaratrygging nær ekki yfir foktjón. Sú trygging nær samt sem áður yfir flóð eins og það sem varð vegna sömu lægðar á Akureyri. Hulda Ragnheiður Árnadóttir er forstjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands. 

„Við höfum fundað með aðgerðastjórn á svæðinu og við höfum séð afmörkun á því svæði sem að mesta tjónið varð á þannig að við vitum að þetta eru tiltölulega fáar eignir en frekar stór tjón á hverri eign. En við erum ekki komin með neina krónutölu eða slíkt,“ segir Hulda um stöðuna á Eyrinni á Akureyri þar sem sjór gekk á land. Flóðið er eina birtingarmynd veðursins sem náttúruhamfaratryggingin nær yfir.

„Það sem er vátryggt hjá okkur eru í rauninni það sem flokkast undir náttúruhamfarir samkvæmt lögum um náttúruhamfaratryggingu af atburðum eins og þessum, þessari lægð sem var að ganga yfir landið um helgina eru það sjávarflóðin. Síðan til viðbótar við það eru aurskriður og snjóflóð og jarðskjálftar eldgos tryggt hjá okkur líka en rok eða eða ofsaveður er ekki tryggt hjá okkur.“

Allar húseignir á Íslandi eru vátryggðar hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Innbú og lausafé er það hins vegar ekki í öllum tilfellum. Til þess að innbú og lausafé fólks sé tryggt fyrir náttúruhamförum þarf það að vera brunatryggt hjá sjálfstæðu tryggingarfélögunum. Hulda segir áhyggjuefni hve fáir geri sér grein fyrir því.

„Það er þannig að samkvæmt lögum eru allar húseignir á Íslandi skyldutryggðar hjá okkur og samhliða innheimtu brunatrygginga skila almennu félögin iðgjaldi til okkar fyrir náttúruhamfaraverndinni. Síðan er það þannig að þeir sem eru ekki með brunatryggingu á innbúi og lausafé eru heldur ekki tryggðir hjá okkur gegn náttúruhamförum."

Náttúruhamfaratrygging Íslands vátryggir aðeins það innbú og lausafé sem er brunatryggt hjá sjálfstæðu Tryggingarfélögunum. 

„Það er bara alveg gríðarlega mikilvægt að fólk hugi að brunatryggingu innbús og lausafjár, bæði vegna brunaáhættunnar sem enginn vill standa uppi með. Þ.e. brunnið innbú sem er ótryggt og þaðan af síður, ef það verða einhverjar stórfelldar náttúruhamfarir, þá væri það afleitt, geta ekki greitt bætur vegna innbús og lausafjár.“

Hulda tekur fram að virði innbús fólks geti hlaupið á tugum milljóna króna. Það er ekki skylda að brunatryggja innbú hér á landi.

„Því miður er það algengur misskilningur að það sé skylda að brunatryggja innbú og lausafé og þess vegna telja margir, sérstaklega kannski ungt fólk sem kaupir allar svona skyldutryggingar, það áttar sig hreinlega ekki á því að innbú þeirra er ekki inni í þeirri tryggingu.“

Eruð þið nú þegar farin að sjá einhver tilfelli um það eftir veðrið í gær? 

„Það er í rauninni ekki farið að reyna á það enn. En inni í þessu eru til dæmis bara vélbúnaðar í stórum trésmíðaverkstæðum, vélsmiðjum og slíku, að oftast nær er það með brunatryggingu vegna áhættunnar sem tekin eru í rekstri ef það væri ekki. Það er algengara að við sjáum innbú hjá bara svona venjulegu fólki sem ekki er vátryggt og við höfum lent í því í þessum atburðum bæði á Seyðisfirði og Selfossi og Hveragerði 2008 í jarðskjálftanum. Þar var talsvert algengt að fólk væri ótryggt innbú.“

Hulda segir stofnunina búna undir að auknum veðuröfgum geti fylgt tíðari náttúruhamfarir líkt og skriðuföll og flóð.

„Allar vísbendingar hníga í þá átt að það verði meira af því og við erum bara mjög vel í stakk búin til að takast á við þá atburði og atburðir eins og varð á Seyðisfirði núna nýlega. Það er atburður sem við sáum ekki fyrir. En við getum alveg búist við einhverjum sambærilegum atburðum í framtíðinni annars staðar og það náttúrulega hefur með sífrera í jörðu að gera líka þegar að þegar fer að losna um slíkt getur getur klárlega valdið frekari skriðuföllum.“

Hulda segir hægt að tryggja sig gegn flestu tjóni sem getur orðið vegna veðurofsa hjá almennu vátryggingarfélögunum. 

„En ég held að  þetta sé trygging sem að sem allra flestir þyrfti að huga að vegna þess að þetta er að verða æ algengara að gangi yfir svona djúpar lægðir, bæði um haust og yfir vetur og ég held að það sé bara mjög mikilvægt að fólk hugi að þessari áhættu.“

Má búast við að auknar veðuröfgar verði til þess að foktjón vegna ofsaveðurs verði hluti af náttúruhamfaratryggingunni?

„Mér finnst það mjög ólíklegt vegna þess að þær tryggingar sem falla undir náttúruhamfaratryggingu eru tryggingar sem ekki eru heppilegar sem markaðsvara. Þetta er jú, ríkisstofnun sem er sett á stofn til að bjóða upp á tryggingar gegn áhættum sem almennu félögin hafa ekki áhuga á að taka í sín viðskipti þannig að ég held að það séu engar líkur á því að það verði farið að bjóða upp á slíkt. Á meðan er vilji hjá almennu félögunum til að bjóða upp á það," segir Hulda að lokum.

Rætt var við Huldu Ragnheiði Árnadóttur í Speglinum. Hægt er að hlusta á viðtalið við hana í spilaranum hér fyrir ofan.