Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Erlendu starfsfólki fjölgar hratt í Færeyjum

Mynd með færslu
 Mynd: Markús Þórhallsson/RÚV
Starfsfólki af erlendum uppruna hefur fjölgað hratt í Færeyjum og hagfræðingur álítur að ekki sjái fyrir endann á þeirri þróun. Færeysk stjórnvöld ákváðu á síðasta ári að greiða leið fólks í atvinnuleit utan Evrópusambandsins inn í landið.

Nýjustu tölur sýna að rúmlega 400 manns frá löndum utan sambandsins hafa sótt um atvinnuleyfi í Færeyjum frá því að ákveðið var að fara þessa leið í nóvember.

Í frétt KVF er þó tekið fram að einhverjir kunni að vera tvískráðir þar sem nýtt leyfi er gefið út þegar fólk skiptir um vinnu. Þrátt fyrir að fjölgað hafi umtalsvert í hópi erlends vinnuafls í Færeyjum undanfarin ár má greina veruleg umskipti á tæpu ári.

Hlutfall erlends starfsfólks frá löndum utan Evrópusambandsins af heildarfjölda á vinnumarkaði fór úr 2,4% í ágúst 2021 í 3,4 af hundraði á sama tíma í ár.

Hagfræðingurinn Johnny í Grótinum telur að enn eigi eftir að fjölga og ber þróunina í Færeyjum saman við Ísland. Hann segir hlutfall erlends starfsfólks hér á landi hafa verið svipað fyrir tuttugu árum og í Færeyjum nú eða um sex prósent.

Hagfræðingurinn segir að nú sé hlutfallið einn af hverjum fimm á Íslandi og telur að vöxturinn á næstu árum verði mestur í ferðaþjónustu og sjávarútvegi.