Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Um 120 sátu föst í bílum sínum á Möðrudalsöræfum

25.09.2022 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend
Björgunarsveitir eru að klára að ferja um 120 manns, sem setið höfðu fastir í bílum sínum á Möðrudalsöræfum, í skjól. Lokunarpóstar voru settir upp um hádegi en fólkið sem festist á leiðinni var lagt af stað fyrir þann tíma.

Björgunarsveitir frá Húsavík, Mývatnssveit, Vopnafirði, Laugum og Aðaldal voru kallaðar út eftir hádegið til að bjarga fólkinu. Ingibjörg Benediktsdóttir sem stýrði aðgerðum frá Húsavík segir að ekki sé vitað um nein slys á fólki. Nokkrir sitja enn í bílum sínum á Möðrudalsöræfunum en stærstur hluti ferðafólksins er kominn í skjól eða á leið í skjól. „Það eru um 60 mans í Beitarhúsi uppá Möðrudal og það eru um 25 mans á leiðinni í  austurátt sem við ætlum að fara með á Skjöldólfsstaði. Og síðan eru um 25 til 30 á leiðinni í vesturátt sem við förum með í vesturátt sem við förum með í Mývatnssveitina og rauði krossinn er að undirbúa að opna fjöldahjálparstöð þar.“

Ingibjörg segir bíla hafa setið fasta í röðum á nokkrum stöðum, aðstæður séu erfiðar og ekki hægt að útiloka að fólkið sé í hættu. „Björgunarsveitarmenn sem eru á svæðinu meta aðstæður og taka þá sem eru kannski í mestri hættur. En svo eru alveg svona pollar inná milli þar sem er alveg ágætis skjól sko. En það er bara roslega mikill svona ís og ísing, það þarf að byrja bara á því að hlaupa út og skafa bíla um leið og þú stoppar bíl sko. Og svo eru að springa rúður í bílum líka og það eru uppá Möðrudal 24 bílar, allir með sprungnar rúður.“

 

astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir