Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þingforsetar áhyggjufullir vegna herkvaðningar

25.09.2022 - 14:00
epa10197217 Russian President Vladimir Putin speaks during a meeting with heads of leading engineering schools and their industrial partners - participants of the Leading Engineering Schools project at Novgorod Technical School in Veliky Novgorod, Russia, 21 September 2022.  EPA-EFE/ILYA PITALEV/SPUTNIK/KREMLIN POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL
Forsetar beggja þingdeilda í Rússlandi hafa fengið veður af verulegri óánægju vegna herkvaðningar rússnesku stjórnarinnar. Sveitastjórnum er skipað að taka á málunum og leysa úr þeim sem allra fyrst. 

Þau Valentina Matviyenko, forseti efri deildar rússneska þingsins, og Vyacheslav Volodi, forseti Dúmunnar, segjast hafa fengið fjölda skilaboða um að karlar sem séu komnir af herskyldualdri séu kallaðir í herinn. Matviyenko segir í samfélagsmiðlinum Telegram að það sé algjörlega óásættanlegt og hún skilji reiðina sem blossar upp meðal þeirra þegar þeir fá herkvaðninguna. Hún beinir skilaboðum sínum beint til sveitastjóra í Rússlandi, sem hún segir bera fulla ábyrgð á ástandinu. Hún segir að þeir verði að tryggja að rétt verði farið að við herkvaðninguna, án nokkurra mistaka. 

Volodin segist einnig hafa fengið kvartanir, að sögn fréttastofu Reuters. Ef mistök séu gerð við herkvaðninguna veðri að leiðrétta þau, og yfirvöld á öllum stigum verði að átta sig á ábyrgð sinni.

Fréttastjóri RT gagnrýnir stjórnvöld

Í gær birtist gagnrýnisrödd í garð stjórnvalda úr óvæntri átt. Margarita Simonyan, fréttastjóri RT í Rússlandi, fór þar nokkuð hörðum orðum um framkvæmd herkvaðningarinnar. Hún benti á að karlmenn að aldrinum 35 ára ættu að vera kvaddir í herinn, en karlmenn um fertugt hafi fengið boð um að gegna herþjónustu frá yfirvöldum. „Þeir reita fólk til reiði, að því er virðist af ásettu ráði, eins og þeir séu að ergja þá. Eins og bréfin hafi verið send frá Kænugarði,“ skrifar Simonyan á Telegram.

Greint var frá því í síðustu viku að 300 þúsund úr varaliði hersins verði kallaðir til þjónustu vegna stríðsins í Úkraínu. Ákvörðunin hefur vakið mikil viðbrögð í Rússlandi. Flugvélar frá landinu fylltust skömmu eftir yfirlýsingu stjórnvalda, og fjölmenni hefur mótmælt ákvörðuninni á götum úti. Talið er að allt að tvö þúsund hafi verið handtekin í mótmælum í landinu um helgina.