Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þakplötur fuku og bátur losnaði í bálhvössu veðri

Mynd með færslu
 Mynd: Markús Þórhallsson/RÚV
Bálhvasst hefur verið á höfuðborgarsvæðinu í nótt og lögreglu hafa borist tilkynningar um að fellihýsi, trampólín, auglýsingaskilti, girðingar, þakplötur og fleira hefðu fokið af stað.

Að sögn varðstjóra hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hefur einnig verið í mörg horn að líta í nótt hjá slökkviliði og björgunarsveitum. Fólk var ekki í hættu en nokkuð tjón hefur orðið einkum vegna þakplatna sem losnuðu af húsum.

Eikarbátur losnaði úr festingum í Hafnarfjarðarhöfn en það tókst að festa hann áður en illa fór að sögn varðstjórans. Björgunarsveitir vinna nú að því að hindra stór veislutjöld úti á Skarfabakka frá því að fjúka út á haf. 

Rauð veðurviðvörun tekur gildi á Austfjörðum á hádegi. Aftakaveður verður á öllum eystri helmingi landsins. Ekkert ferðaveður er meðan veðrið gengur yfir, vegum verður lokað, björgunarsveitir eru í viðbragðsstöðu og Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir hættu- og óvissustigi.

Auk rauðrar viðvörunnar á Austfjörðum hefur Veðurstofan gefið út appelsínugula viðvörun fyrir Norðurland eystra, Austurland að Glettingi og Suðurland sem tekur gildi með morgninum.

Búist er við miklu hvassviðri, slyddu og snjókomu á fjallvegum. Vindhviður gætu náð yfir fjörutíu og fimm metra á sekúndu. Hættustigi almannavarna hefur verið lýst yfir á Suðurlandi og Austurlandi og óvissustigi á Norðurlandi vestra og -eystra.