Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Kanslari og prins ræddu orkuviðskipti og mannréttindi

epa10203460 A handout photo made available by the Saudi Royal Court shows Saudi Crown Prince Mohammed bin Salman al-Saud (R) meeting with German Chancellor Olaf Scholz (L) in Jeddah, Saudi Arabia, 24 September 2022.  EPA-EFE/BANDAR ALJALOUD / SAUDI ROYAL COURT / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - SAUDI ROYAL COURT
Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, er á ferð um miðausturlönd þar sem hann vonast til að komast að samkomulagi um kaup á jarðgasi. Hann ræddi hvort tveggja viðskipti og mannréttindi við leiðtoga Sádí-Arabíu í gær.

Kanslarinn kom til Sádí-Arabíu í gær til fundar við krónprinsinn Mohammed bin Salman, raunverulegan æðsta ráðamann ríkisins. Þeir ræddu sín á milli um frekari orkuviðskipti milli landanna en hingað til. 

Tilgangur ferðarinnar er að tryggja Þjóðverjum orku eftir að Rússar skrúfuðu fyrir NordStream gasleiðslurnar til Evrópu. Með Scholz í för er fjölmennur hópur manna úr þýsku viðskiptalífi.

Þeir Scholz og Salman ræddu um innrás Rússa í Úkraínu og mannréttindi voru sömuleiðis á dagskrá. Þýskir blaðamenn spurðu Scholz hvor hann hefði rætt morðið á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi. Hann var ráðinn var af dögum í skrifstofu ræðismanns Sádi-Arabíu í Istanbúl 2. október 2018. 

Kanslarinn svaraði því til að mannréttindamál í víðum skilningi hefðu verið til umræðu, ekkert hefði verið látið órætt. Leyniþjónusta Bandaríkjanna telur að Salman prins hafi fyrirskipað morðið og Hatice Cengiz eftirlifandi unnusta Khashoggis segir heilann á bakvið það enn ganga lausan.