Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Ítalíu í sjónmáli

epa10204017 Polling station officials prepare voting cards during final preparations for the general elections inside a polling station in Rome, Italy, 24 September 2022. Italy will hold its general snap elections on 25 September 2022 to elect a new Prime Minister.  EPA-EFE/ETTORE FERRARI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Ítalskir kjósendur ganga að kjörborðinu í dag, sunnudag og allt bendir til þess að flokkur lengst til hægri á pólítíska litrófinu verði sigurvegari kosninganna. Leiðtogi flokksins vonast til að verða fyrsti kvenkynsforsætisráðherra Ítalíu.

Kjörstaðir verða opnaðir klukkan fimm og þeim verður lokað klukkan níu í kvöld. Útgönguspár verða birtar um leið og kjörfundi lýkur en innanríkisráðuneytið gefur ekki upp endanleg úrslit fyrr en á mánudag. 

Hægri flokkur Giorgiu Meloni, Fratelli d'Italia, eða Bræðralag Ítalíu, leiðir í öllum skoðanakönnunum. Þrír hægriflokkar hafa bundist bandalagi, Lega undir stjórn Matteo Salvini og Forza Italia með Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra, í broddi fylkingar.

Fyrsti kvenkynsforsætisáðherrann í sjónmáli

Meloni vonast til að eftir kosningarnar verði hún fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Ítalíu. Hún hefur lagt sig í líma í kosningabaráttunni við að sanna að hún geti tekist á við verkefnið.

Meloni hefur heitið því að lækka skatta, draga úr skrifræði og auka útgjöld til varnarmála.

Hún vill loka landamærum landsins fyrir straumi innflytjenda og sporna við réttindabaráttu hinsegin fólks. Hún vill einnig endursemja við Evrópusambandið og færa meira vald heim til Rómar.

Nýs forsætisráðherra bíða ærin verkefni, þau helstu barátta við óðaverðbólgu og orkukreppa. Efnahagur Ítalíu jafnaði sig nokkuð fljótt eftir kórónuveirufaraldurinn en ríkissjóður er skuldum hlaðinn sem nemur um 150% vergrar þjóðarframleiðslu. 

Wolfango Piccoli, sérfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækinu Teneo, segir kjósendur viljuga til að gefa nýliðanum Meloni tækifæri, hún sé eini leiðtoginn sem eigi eftir að reyna sig við embættið. 

Nokkurn tíma getur tekið að mynda ríkisstjórn

Jafnvel þótt niðurstöður kosninganna verði skýrar getur myndun nýrrar ríkisstjórnar á Ítalíu verði tímafrekt verkefni. Algengt er að fjórar til tólf vikur þurfi til.

Það tók Silvio Berlusconi 24 daga að mynda stjórn árið 2008 en Giuseppe Conti þurfti 89 daga til þess tíu árum síðar. 

Sergio Mattarella, forseti Ítalíu, ráðfærir sig við forseta beggja deilda þingsins um hver eigi að leiða stjórnarmyndunarviðræður. Leiðtogar helstu stjórnmálaflokkanna koma einnig að því samtali og síðar talsmenn helstu fylkinga á þinginu. 

Ef úrslit kosninganna eru afgerandi tekur þetta skamman tíma, yfirleitt tvo daga og upp í viku. Við svo búið tilefnir forsetinn nýjan forsætisráðherra. Viðkomandi þiggur verkefnið, með fyrirvara, og hefur viðræður við bandamenn sína um ráðherrasæti og stjórnarstefnu. 

Náist samkomulag gengur forsætisráðherraefnið til forseta að nýju og afléttir öllum fyrirvörum.

Tilkynnt er um nýja ríkisstjórn sem sver forsetanum embættiseið samdægurs. Þaðan halda ráðherrarnir til embættisbústaðar forsætisráðherrans, Palazzo Chigi í Róm, þar sem valdaskiptin fara formlega fram.