Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Andstaða við hækkun eftirlaunaaldurs í Frakklandi

epa10199163 French President Emmanuel Macron delivers a speech at the Sub-Prefecture in Saint-Nazaire after a visit at the Saint-Nazaire offshore wind farm, off the coast of the Guerande peninsula in western France, 22 September 2022.  EPA-EFE/STEPHANE MAHE / POOL  MAXPPP OUT
 Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Franska verkalýðsfélagið CGT hefur með fulltingi stjórnmálaflokka á vinstri vængnum boðað til allsherjarverkfalls næstkomandi fimmtudag. Upphafleg krafa verkalýðsfélagsins sneri eingöngu að hækkun launa en spjótum verður einnig beint að fyrirætlunum um hækkun eftirlaunaaldurs.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti lét ekki verða af fyrirætlunum sínum um hækkun eftirlaunaaldurs á fyrra kjörtímabili sínu. Málið er enda mjög eldfimt meðal franskra kjósenda sem hafa sýnt því andstöðu í skoðanakönnunum.

Þrátt fyrir að hafa tapað þingmeirihluta í júní hyggst forsetinn láta reyna á hækkun eftirlaunaaldurs úr 62 árum í 64 eða 65. Macron kveðst ekki ætla að gefa sér fyrirfram niðurstöðu ríkisstjórnar og þings en kveðst sannfærður um nauðsyn þess að hækka eftirlaunaaldurinn.

Með því verði komið í veg fyrir fækkun fólks á vinnumarkaði sem sé eina færa leiðin út úr efnahagsvanda ríkisins önnur en hækkun skatta. Formaður CGT, Phillippe Martinez, segir það ekki standast nokkra skoðun og kveðst algerlega mótfallinn hækkun eftirlaunaaldurs í Frakklandi. 

Viðhorf almennings til málsins er talið hafa afgerandi áhrif á hvort Macron tekst að endurlífga umbótatillögur sínar sem hann varð að slá af eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á 2020.