Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vegum verður lokað og björgunarsveitir í viðbragðsstöðu

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands - Skjáskot
Rauð veðurviðvörun tekur gildi á Austfjörðum á hádegi á morgun, en aftakaveður verður á öllum austari helmingi landsins. Vegum verður lokað, björgunarsveitir eru í viðbragðsstöðu og ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir hættu- og óvissustigi.

Auk rauðrar viðvörunnar á Austfjörðum hefur Veðurstofan gefið út appelsínugula viðvörun fyrir Norðurland eystra, Austurland að Glettingi og Suðurland sem tekur gildi í fyrramálið. Búist er við miklu hvassviðri, slyddu og snjókomu á fjallvegum. Vindhviður gætu náð 50-60 metrum á sekúndu. Hættustigi almannavarna hefur verið lýst yfir á Suðurlandi og Austurlandi og óvissustigi á Norðurlandi vestra og -eystra.  

Lokanir á vegum

Vegagerðin undirbýr lokanir á vegum og það getur verið að þær verði óvenjuvíðtækar. G. Pétur Matthíasson, forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðarinnar, segir að að búið sé að ákveða hluta lokanna en annað verði metið á morgun. „Það er alveg búið að taka ákvörðun um að í fyrramálið og fram eftir öllum sunnudeginum að þá verði verði lokað á milli Klausturs og alveg austur í Berufjörð. Það getur vel verið að við þurfum að loka meira í vesturátt og síðan lítur töluvert illa út bara með alla Austfirði.“

Pétur segir miklar líkur á að veginum um Fagradal verði lokað. Þá séu líkur á að einfaldlega þurfi að loka fyrir alla umferð út úr þéttbýli á Austurlandi. 

Björgunarsveitir í viðbragðsstöðu

Sveinn Halldór Oddson Zoëga, formaður svæðisstjórnar Björgunarsveita á Austurlandi, segir björgunarsveitir eystra komnar í viðbragðsstöðu vegna veðursins. „Hérna fyrir Austfirðina að minnsta kosti lítur þetta út fyrir að vera svona það sem er kallað foktjónaveður, þetta er bísna vond átt. Svo erum við með auðvitað Möðrudalsöræfin og fjallvegina hérna fyrir austan þar sem að er bæði hvasst, úrkoma og frost þannig að við getum verið komin í svolítið erfiðar vetraraðstæður mjög skyndilega og það er auvitað það sem við höfum áhyggjur af líka þegar eru ferðamenn á ferðinni.“

Sveinn segir áskorun að koma þessum skilaboðum til ferðamanna en hvetur fólk í ferðaþjónustu til þess að koma upplýsingum áfram til erlendra viðskiptavina. Þá ítrekar hann mikilvægi þess að ganga vel frá lausamunum og vera ekki á ferðinni á morgun. „Garðhúsgögnin og trampólínin eiga að vera komin í skjól núna.“