Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Mistök að sækja ekki um leyfi fyrir kennslu í Ármúla

Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Það voru mistök að sækja ekki um leyfi til að nota skrifstofuhúsnæði í Ármúla fyrir nemendur í Hagaskóla, segir formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur. Leikskólinn í Kringlunni 1 er líka rekinn án tilskildra leyfa. Byggingarfulltrúi Reykjavíkur hefur tilkynnt skólayfirvöldum þar og í Hagaskóla að til greina komi að loka húsnæðinu verði leyfisumsókn ekki skilað innan tíu daga. 

Vegna myglu hraktist hluti af skólastarfi Hagaskóla úr byggingunni og frá því snemma árs hefur verið kennt í gömlu skrifstofuhúsnæði að Ármúla þrjátíu. Greint var frá því í fréttum í gær að Reykjavíkurborg hefði ekki sótt um leyfi fyrir þessari breyttu notkun. Nýverið fór slökkvilið höfuðborgarsvæðisins þangað og gerði margvíslegar athugasemdir. Varaslökkviliðsstjóri sagði í gær að nemendum gæti verið hætta búin. Brunahólfun væri ekki sem skyldi og flóttaleiðum ábótavant. 

Leyfislaus leikskóli í 3 mánuði

Það er ekki bara skólahaldið í Ármúla sem er án leyfis. Leikskólinn Sunnuás hefur verið í Kringlunni 1 frá því í byrjun júní og hér eru engin leyfi frá byggingafulltrúa.

Hagaskóli flutti hluta af kennslunni yfir í Ármúla 30 á síðasta kennsluvetri og í haust settust 400 nemendur á skólabekk þar. 

Borgin hafi gleymt að sækja um leyfi hjá sjálfri sér

„Manni verður bara eiginlega orða vant. Þetta er eiginlega bara svo algjörlega fráleitt, að það líti út fyrir að borgin hafi gleymt að sækja um tilskilin leyfi til sjálfrar sín áður en hún flutti sinn eigin skóla í skrifstofuhúsnæði í Ármúla. Það finnst mér bara ... nær út fyrir allan þjófabálk,“ segir Vífill Harðarson, formaður foreldrafélags Hagaskóla.

Frestur rennur út 4. október

Fréttastofa hafði samband við Nikulás Má Úlfarsson, byggingarfulltrúa Reykjavíkur. Hann vildi ekki veita viðtal en segir að ekki hafi verið sótt um byggingarleyfi eins og skylt er þegar húsnæði er breytt. Það sama gildi um leikskólann í Kringlunni. Reykjavíkurborg hafi í báðum tilvikum verið tilkynnt að eigi síðar en 4. október verði að liggja fyrir nýjar teikningar og samþykkt byggingarleyfi. Nikulás segir að meiru hafi verið breytt í Ármúla en í Kringlunni og því sé brýnna að þær teikningar og úrbætur á brunavörnum skili sér innan tíu daga. Verði það ekki gert komi til greina að loka húsnæðinu. 

Innviðaráðuneytið í heimildarleysi veitt undanþágu

Nikulás segir að Reykjavíkurborg hafi sótt um undanþágu til innviðaráðuneytisins frá því að skila inn byggingarleyfi og hafi fengið. Hins vegar sé ráðuneytinu ekki heimilt til að veita undanþágu frá kröfum um eldvarnir. Nikulás hefur óskað eftir framkvæmdaáætlun frá borginni um breytingarnar. 

„Það sem gerist í rauninni er að þetta eru mistök, þ.e.a.s. það er ekki farið í gegnum byggingafulltrúa til þess að fá leyfi þegar árgangur tvö fer inn,“ segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar (B).

Nú talaði ég við byggingafulltrúann í Reykjavík og hann sagði að það hefði aldrei verið sótt um byggingarleyfi fyrir þessari breyttu notkun, heldur ekki á síðasta kennsluvetri. Hvernig stendur á því?

„Það kemur mér á óvart. Ef svo er þá er það alveg galið,“ segir Árelía.

Árelía, sem sjálf á barn í skólanum í Ármúla, bendir á að það sé hlutverk eignasviðs borgarinnar að tryggja að húsnæðið sé eins og það á að vera en skóla- og frístundaráð beri ábyrgð á skólastarfinu.

Árelía segir að boðað verði til fundar með foreldrum og skólastjórnendum Hagaskóla á mánudag. Óvíst sé að kennsla verði hjá öllum nemendur þann dag.

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV