Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Með ólíkindum að borgin sinni ekki brunavörnum

24.09.2022 - 12:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður foreldrafélags Hagaskóla segir það með ólíkindum að Reykjavíkurborg fari með skólastarf inn í húsnæði sem uppfylli ekki kröfur um brunavarnir. Þetta sé þvert á þau svör sem skólastjórnendum og fulltrúar borgarinnar hafi sagt á fundi með stjórn foreldrafélagsins í haust.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins telur að nemendum Hagaskóla sem sækja skóla í bráðabirgðahúsnæði í Ármúla geti verið hætta búin. Þetta kom fram í máli varaslökkviliðsstjóra í Sjónvarpsfréttum í gærkvöldi. Brunahólfun og flóttaleiðum sé ábótavant. Ekki hafi verið haft samband við slökkviliðið líkt og skylt er þegar atvinnuhúsnæði er breytt í skóla. Slökkviliðið hefur gefið Reykjavíkurborg og skólastjórnendum þriggja vikna frest til að lagfæra húsnæðið. 

Reykjavíkurborg sinni úrbótum

Sesselja  Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjóri Hagaskóla, vildi ekki veita fréttastofu viðtal. Hún segir að það standi upp á eignasvið Reykjavíkurborgar og eigenda hússins að lagfæra húsnæðið í samræmi við kröfur slökkviliðs. 

Foreldrar barnanna sem sótt hafa nám í Ármúlann eru margir hverjir slegnir yfir fréttum af ástandi brunavarna. Vífill Harðarson er formaður foreldrafélags Hagaskóla.

Grunnkröfur sem eigi að vera í lagi

„Ég er fyrst og fremst bara hissa á þessu. Mér finnst algjörlega ótrúlegt að Reykjavíkurborg fari með skólastarf inn í húsnæði sem uppfyllir ekki þessar kröfur. Þetta eru um það bil þær grunnkröfur sem maður myndi gera kröfu um að væru í lagi. Þetta er alveg með ólíkindum finnst mér,“ segir Vífill.

Og varst þú sem formaður foreldrafélagsins búinn að spyrja út í aðbúnaðinn í Ármúla?

„Já, já, við í stjórn foreldrafélagsins og ég hafði spurt skólastjóra og fulltrúa borgarinnar um það hvort þessi mál væru í lagi og fengið þau svör að þessi mál ættu öll að vera í lagi. Fyrir utan það að maður gaf sér nú það að þetta væri í lagi. En jú jú það var búið að spyrja út í þetta líka,“ segir Vífill.

Vífill furðar sig á að Reykjavíkurborg útvegi húsnæði sem ekki standist kröfur um brunavarnir.

„En mér finnst þetta náttúrulega algjörlega fyrir neðan allar hellur,“ segir Vífill.

Foreldrar undrandi og ósáttir

Vífill segir áður en þetta kom upp hafi foreldrar gert margvíslegar athugasemdir við skólahald í Ármúla. Ófullnægjandi brunavarnir bætist nú við þann lista. Foreldrar séu undrandi og ósáttir.

„Afar óánægt með þetta. Og maður upplifir að traust gagnvart þeim sem við höfum verið í samskiptum vegna skólahaldsins þarna og þessa ástands sem hefur verið í Hagaskóla í tæpt ár, er fokið út í veður og vind,“ segir Vífill.