Orkumálaráðherra Katars, Saad Sherida Al-Kaabi, sagði á blaðamannafundi í morgun að TotalEnergies ætli að taka þátt í stækkun einnar orkulindar Katars. Fjárfestingin nemur einum og hálfum milljarði bandaríkjadala. Franski orkurisinn gerði einnig samkomulag við Katar í sumar um 2,5 milljarða bandaríkjadala fjárfestingu í náttúrugasframleiðslu landsins.
Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, flýgur til Sádi Arabíu í dag þar sem hann hefur tveggja daga ferðalag sitt á svæðinu. Hann heldur til fundar við krónprinsinn Mohammed bin Salman í Jeddah í dag, og heldur þaðan til Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Katars. Tilgangur ferðarinnar er að tryggja Þjóðverjum næga orku eftir að Rússar skrúfuðu fyrir NordStream gasleiðslurnar til Evrópu. Með Scholz í för er fjölmennur hópur viðskiptamanna.
Vilja mannréttindamál í brennidepil
Heimildamanneskja Deutsche Welle úr þýsku ríkisstjórninni segir kanslarann ætla að tjá sig um stöðu mannréttindamála í ríkjunum sem hann heimsækir. Hann ætli þó að passa upp á að passa upp á að hægt verði að vinna með krónprinsinum. Prinsinn er sakaður um að hafa staðið að aftökunni á blaðamanninum Jamal Khashoggi fyrir fjórum árum. Khashoggi var myrtur á ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl. Samskipti á milli vesturveldanna og Sádi Arabíu stirðnuðu verulega eftir morðið, en einhver þíða virðist komin í samskiptin undanfarið. Bæði Joe Biden Bandaríkjaforseti og franski starfsbróðir hans Emmanuel Macron hafa haldið fund með krónprinsinum á árinu.
Þrýst er á Scholz úr mörgum áttum að taka hart á mannréttindamálum á meðan hann er í Miðausturlöndum. Renata Alt, formaður mannréttindanefndar þýska þingsins, segir jafn mikilvægt að ræða stöðu mannréttindamála í ríkjunum þremur og að semja um orkusölu til Þýskalands. Khalid Ibrahim, formaður mannréttindamiðstöðvar ríkja við Persaflóa, GCHR, segir kanslarann eiga að kalla eftir því að pólitískir andstæðingar verði leystir úr fangelsi í ríkjunum. Þá kalla samtök blaðamanna án landamæra, RSF, eftir því að Scholz krefji leiðtoga ríkjanna til þess að auka frelsi fjölmiðla þar.