Vill aukið fjármagn fyrir lögregluna

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að auka þurfi fjárframlög til lögreglu á næsta ári frá því sem ráð er fyrir gert í fjárlagafrumvarpi. Það sé þó ekki út af fréttum gærdagsins. „Það þarf ekki atburði síðustu daga til að segja okkur að það þurfi að endurskoða þetta.“ Gert er ráð fyrir skertum fjárframlögum til lögreglu í fjárlagafrumvarpi.

Jón segir að endurskoðun á störfum lögreglu hafi staðið yfir frá því í byrjun árs innan ráðuneytisins. Nú séu komnar fram tillögur frá starfshópi um ákveðnar breytingar á innra starfi lögreglu og samvinnu við aðrar stofnanir. 

Afrakstur þessarar vinnu verður notaður til að fara fram á aukin fjárframlög til lögreglunnar. „Þessar greiningar lágu ekki fyrir við gerð fjárlagaáætlunar og fjárlagagerðar fyrir árið en fyrirvarar af minni hálfu gagnvart fjármálaráðherra og ráðuneytinu voru um það að við myndum þurfa frekari fjárheimildir.“ Alþingi fær sendar tillögur að breytingum á fjárframlögum til löggæslunnar með rökstuðningi sem byggir á vinnu starfshópsins.

Urður Örlygsdóttir fréttamaður ræddi við Jón eftir ríkisstjórnarfund. Hún spurði hann meðal annars hvort að hryðjuverkaáform sem lögregla greindi frá í gær hefðu áhrif á hugsanlegan vopnaburð lögreglunnar. „Mitt mat er að við séum ekki komin þangað að við förum að vopna menn með skotvopn í beltinu,“ segir Jón. „Við erum vissulega að horfa til þess að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi lögreglumanna við sín mikilvægu störf til þess að þeir geti tryggt öryggi borgaranna í þessum breytta umhverfi sem við blasir.“ Ráðherrann segir að notkun skotvopna í glæpum hafi ekki aukist mikið en vopnaburður hafi brugðist gríðarlega mikið. Tryggja verði að lögreglan geti brugðist við slíkum aðstæðum, tryggt öryggi borgaranna og komið heilir heim.