ÖSE: Kúgun rússneskra stjórnvalda eykst sífellt

epa10197086 Russian President Vladimir Putin (R) attends a meeting with heads of leading engineering schools and their industrial partners - participants of the Leading Engineering Schools project at Novgorod Technical School in Veliky Novgorod, Russia, 21 September 2022.  EPA-EFE/GAVRIIL GRIGOROV/SPUTNIK/KREMLIN POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL
Ofsóknir rússneskra stjórnvalda á hendur borgaralegum stofnunum hafa vaxið að miklum mun síðustu mánuði að því er fram kemur í nýrri skýrslu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.

Eftir að Vladímír Pútín Rússlandsforseti fyrirskipaði innrás í Úkraínu 24. febrúar hafa stjórnarandstaða, fjölmiðlar og fjölmörg sjálfstæð félagasamtök mátt þola kúgunartilburði og bælingu.

Forsetinn er sagður hafa völd yfir öllum stjórnmálamönnum landsins og að fjöldi íþyngjandi laga hafi verið settur eftir að hann var endurkjörinn árið 2012. Andrúmsloftið í Rússlandi er sagt þrungið kúgun og ótta. 

Skýrsluhöfundur hvetur ÖSE til að vernda brottflúna rússneska mannréttindafrömuði, lögfræðinga og blaðamenn. Jafnframt mælir hún með því að Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna tilnefni sérstakan eftirlitsmann með framvindu mála í Rússlandi.

Það voru 38 af 57 aðildarríkjum ÖSE sem í júlí fengu Angeliku Nußberger, þýskan lagaprófessor og fyrrverandi dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, til að vinna skýrsluna.

Tilgangurinn var að kanna stöðu mannréttinda, löggjafarmála og lýðræðisþróun í Rússlandi. Þarlend stjórnvöld þvertóku fyrir að vinna með Nußberger og hleyptu henni ekki inn í landið.

Rannsóknin byggist að stórum hluta á viðtölum við fulltrúa ýmissa afla í Rússlandi auk núverandi og fyrrverandi embættismanna. Enginn þeirra er nafngreindur af öryggisástæðum.