Innantóm markmið og ófullnægjandi aðgerðir

23.09.2022 - 15:12
Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV
Stjórnvöld eiga langt í land ætli þau að standa undir sinum eigin loftlagsmarkmiðum segir Finnur Ricart Andrason í umhverfispistli í Samfélaginu á Rás 1.

 

Finnur Ricart Andrason flytur pistilinn:

———————————————

,,Markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 eru óljós og ófullnægjandi. Nauðsynlegt er að stjórnvöld skýri og útfæri þessi markmið nánar. Framkvæmd  aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum er ómarkviss og auka þarf samdrátt hratt með samstilltu og vel skipulögðu átaki allra.’’

Þetta eru orð úr áliti Loftslagsráðs Íslands frá júní síðastliðnum. Með álitinu sendi ráðið skýr skilaboð til stjórnvalda: þið eruð ekki að gera nóg og þið þurfið nauðsynlega að gera eitthvað til að bæta úr því undir eins. Loftslagsráð er sjálfstætt starfandi ráð sem hefur það meginhlutverk að veita stjórnvöldum aðhald með faglegri ráðgjöf um loftslagsmál og ber að taka áliti þeirra alvarlega. Hins vegar eru skilaboð um ófullnægjandi loftslagsaðgerðir stjórnvalda ekki ný af nálinni því umhverfisverndarsamtök landsins hafa bent á þessa staðreynd árum saman án mikils árangurs. 

Gera meira strax

Fleiri vísbendingar um að aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum séu ófullnægjandi hafa komið fram á undanförnum mánuðum. Fyrr á árinu hélt Umhverfisstofnun fyrsta Loftslagsdaginn á Íslandi og var þar m.a. fjallað um nýja framreikninga sem spá til um losun Íslands næstu tvo áratugina. Þessir framreikningar byggja á núverandi aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og sýna þeir það svart á hvítu hve langt stjórnvöld eru frá því að ná eigin markmiðum. Ef fram fer sem horfir mun heildarlosun Íslands árið 2030 einungis hafa dregist saman um einn tíunda þess sem alþjóða vísindasamfélagið segir að sé nauðsynlegt. Þetta samsvarar því að fá einn í einkunn af 10 mögulegum stigum á prófi og skilst mér að það teljist yfirleitt sem falleinkunn. Ef við horfum síðan til ársins 2040 mun heildarlosun einungis hafa dregist saman um tæp 10% miðað við 2005 og vantar því 90% samdrátt upp á til að markmiði stjórnvalda um kolefnishlutleysi 2040 náist.  Aftur samsvarar þetta falleinkunn þar sem að langmesti samdrátturinn stendur eftir. Þessar tölur eru kannski ekki mjög aðgengilegar en þær sýna það að ef við ætlum að standast markmið okkar í loftslagsmálum þarf að gefa verulega í. 

Fleiri tölur sem benda til þess að spýta þurfi í lófana eru bráðabirgðatölur Umhverfisstofnunar fyrir losun Íslands árið 2021 sem birtar voru í síðustu viku. Þessar tölur benda til þess að losun án landnotkunar hafi aukist um 3% milli 2020 og 2021. Auðvitað hafði heimsfaraldurinn sem geysaði árið 2020 þau áhrif að losun það árið var minni en búast hefði mátt við, en ef miðað er við árið 2019 sem telst sem venjulegt ár dróst samt sem áður mjög takmarkað úr losun fram til 2021.

Ný stöðuskýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem kom út síðastliðinn ágúst kemst að sömu niðurstöðu og Loftslagsráð og Umhverfisstofnun um að núverandi aðgerðaráætlun sé ófullnægjandi og að nauðsynlegt sé að uppfæra hana sem allra fyrst til að hún stuðli að nægum samdrætti í losun. 

18 ár ekki langur tími

Í ljósi allra þessara vísbendinga um ófullnægjandi aðgerðir vaknar spurningin: til hvers að setja sér markmið ef ekki er gert nærri því nóg til að uppfylla þau? Ég vil alls ekki gera lítið úr því sem stjórnvöld hafa gert hingað til til að draga úr losun því miklar framfarir hafa orðið frá því fyrir 10 eða jafnvel 5 árum og ný áætlun matvælaráðherra um landgræðslu og skógrækt á Íslandi er gott skref í rétta átt, en þessar framfarir duga einfaldlega ekki til. Eins og Loftslagsráð tekur fram síðar í áliti sínu sem ég minntist á í upphafi pistils, þarf að ráðast í kerfislægar breytingar og verða stjórnvöld að skapa umgjörð sem stuðlar að jákvæðum breytingum með markvissri stefnumótun án tafar. 

Það eru tæp 18 ár til stefnu. 18 ár þar til Ísland á að vera kolefnishlutlaust. 18 ár þar til heildarlosun Íslands má ekki nema meiru en sú binding sem á sér stað í landinu. 18 ár; þetta er ekki langur tími. Það þarf mikið ímyndunarafl til að ímynda sér hvernig þessi nálæga framtíð mun líta út og hvernig við ætlum að komast þangað.

Einnig þurfum við að nýta ímyndunaraflið og skapandi hugsun okkar í auknum mæli til að ná meiri árangri í loftslagsmálum. Nýsköpun er fyrirbæri sem er oft talað um að þurfi að efla til að leysa loftslagsvandann, og það er alveg rétt því upp að vissu marki þurfum við á nýrri tækni að halda. En við þurfum líka að virkja ímyndunaraflið til þess að umbylta úreltum kerfum sem halda aftur af samdrætti í losun og gefa þannig öðrum og betri kerfum, eða lausnum sem við vitum þegar um en erum ekki að nýta til fulls, meira pláss til að blómstra. 

Sem dæmi er ófullnægjandi að viðhalda núverandi samgönguvenjum, sem einkennast að langmestu leiti af notkun einkabílsins, með því að rafvæða allan bílaflotann þar sem framleiðsluferli rafbíla er mjög auðlinda- og orkufrekt og þarfnast auk þess að við fórnum ósnortinni náttúru fyrir raforkuframleiðslu. Í staðin ætti megináherslan að vera á að breyta kerfinu til að það sé auðveldara, ódýrara og ákjósanlegra að ferðast með almenningssamgöngum og virkum ferðamátum.

Einnig þarf að draga markvisst úr framleiðslu og neyslu dýraafurða og hvetja fólk til að neyta í staðin matvæla úr plönturíkinu sem eru í flestum tilfellum mun umhverfis- og loftslagsvænni. Núverandi aðgerðir stjórnvalda gera lítið sem ekkert til að ýta undir þessa nauðsynlegu kerfisbreytingu. Við breytingar sem þessa þarf auðvitað að hafa réttlát umskipti að leiðarljósi til að enginn verði fyrir skaðlegum afleiðingum þeirra.

Innleiðing vistgreiðsla til bænda eru annað dæmi um kerfisbreytingu sem myndi bæði hjálpa til við réttlát umskipti í landbúnaði sem og stuðla að aukinni náttúruvernd og endurheimt vistkerfa. 

Eins og þessi dæmi sýna þá er vandamálið ekki úrræðaleysi heldur aðgerðarleysi þar sem til eru ótal lausnir við loftslagsvánni en það er ekki verið að nýta nærri því allar þær lausnir sem við gætum og ættum að vera að nýta.

Stjórnvöld verða að gera betur

Það er ljóst að þörf er á kerfisbreytingum til að ná markmiðum og skuldbindingum okkar í loftslagsmálum; til að ná að standa við markmið alþjóðasamfélagsins um að takmarka hnattræna hlýnun við 1.5 gráðu frá iðnbyltingu; til að koma í veg fyrir að heil smáeyríki sökkvi vegna hækkunar sjávarborðs með tilheyrandi tilvistarkreppu þjóða þeirra. Þrátt fyrir að þetta sé samvinnuverkefni og að við þurfum öll að leggja okkar af mörkum liggur boltinn nú að mestu leyti hjá ríkisstjórninni. Til að ná fram breytingum þarf að vera vilji meðal almennings og svo þurfa stjórnvöld að liðka til fyrir breytingunum. Nú eru mörg okkar í þeirri stöðu að við viljum og erum tilbúin fyrir nauðsynlegar breytingar en stjórnvöld koma ekki nægilega til móts við okkur til að hægt sé að framkvæma þær. Ríkisstjórnin þarf bráðnauðsynlega að uppfæra aðgerðaráætlun sína í loftslagsmálum og sjá til þess að hertar aðgerðir skili nægum samdrætti fram til 2030 og 2040. 

Fögur markmið ein og sér duga einfaldlega ekki til. Ef ríkisstjórnin vill standa við fyrirheit sitt sem fram kemur í stjórnarsáttmálanum um að vera leiðandi í loftslagsmálum á heimsvísu þurfa gjörðir þeirra á þinginu á næstu mánuðum að snúast fyrst og fremst um róttækari loftslagsaðgerðir. Augu ungs fólks, smáeyríkjaþjóða og framtíðarkynslóða hvíla á ykkur, ekki bregðast okkur.

 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárritstjórn