Herinn hótar hörðum aðgerðum gegn mótmælendum

23.09.2022 - 09:53
epa10197704 People clash with police during a protest  following the death of Mahsa Amini, in Tehran, Iran, 21 September 2022. Mahsa Amini, a 22-year-old Iranian woman, was arrested in Tehran on 13 September by the morality police, a unit responsible for enforcing Iran's strict dress code for women. She fell into a coma while in police custody and was declared dead on 16 September, with the authorities saying she died of a heart failure while her family advising that she had no prior health conditions. Her death has triggered protests in various areas in Iran and around the world. According to Iran's state news agency IRNA, Iranian President Ebrahim Raisi expressed his sympathy to the family of Amini on a phone call and assured them that her death will be investigated carefully. Chief Justice of Iran Gholam-Hossein Mohseni-Eje'i assured her family that upon its conclusion, the investigation results by the Iranian Legal Medicine Organization will be announced without any special considerations.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Íranski herinn boðar hörku gegn mótmælendum í landinu, sem herinn kallar óvini ríkisins í yfirlýsingu frá því í morgun. Reuters hefur eftir yfirlýsingunni að herinn sé reiðubúinn að mæta óvininum til þess að tryggja öryggi og frið í landinu. Herinn segir mótmælaaðgerðirnar örvæntingarfullar og hluta af illri vegferð óvinarins til að veikja hið íslamska íranska ríki. Forseti landsins segir málfrelsi ríkja í landinu.

Fjölmenni hefur mótmælt á götum úti víða í Íran síðustu daga, eftir að hin 22 ára Mahsa Amini lést eftir að hafa verið handtekin af siðgæðislögreglu landsins. Henni var gefið að sök að hafa ekki hulið hár sitt nógu vel undir hijab-slæðu sinni. Yfirlýsing hersins birtist aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Ebrahim Raisi, forseti Írans, tjáði allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að málfrelsi ríkti í landinu. Víða hefur þó verið skrúfað fyrir síma- og netsamband í Íran, og almenningur er varaður við þátttöku í mótmælum.

Nokkrir blaðamenn og aðgerðarsinnar hafa verið handteknir í landinu í vikunni. Þeirra á meðal er Nilufar Hamedi, sem átti stóran þátt í að mál Amini hlaut athygli í alþjóðlegum fjölmiðlum. Hamedi fór inn á sjúkrahúsið þar sem Amini lá í dái. Sherif Mansour, verkefnastjóri hjá samtökum til verndar blaðamanna, CPJ, krefst þess að írönsk yfirvöld leysi alla fjölmiðlamenn, sem fjölluðu um mál Aminis og mótmælin vegna þess, tafarlaust úr haldi.

Óttast svipuð mótmæli og 2019

Mótmælendur hafa meðal annars beint reiði sinni að lögreglustöðvum í Teheran og fleiri borgum. Eldur hefur verið lagður að þeim og bílum á götum úti, auk þess sem fregnir hafa borist af því að ráðist hafi verið á öryggissveitir.
Mannréttindasamtök telja að yfir 30 hafi látið lífið í mótmælunum síðustu sex daga. Reuters segir írönsku klerkastjórnina óttast svipuð mótmæli og árið 2019 þegar almenningur reiddist yfir hækkun á eldsneytisverði. Þau voru þau mannskæðustu í sögu Írans.

Amini lést á sjúkrahúsi þremur dögum eftir að siðgæðislögreglan handtók hana. Hún lá í dái þar til hún lést. Yfirvöld fullyrtu að hún hafi dáið úr hjartaáfalli, en heimildir fjölmiðla herma að krufning hafi leitt í ljós umtalsverða höfuðáverka. Andlát hennar endurvakti undirliggjandi reiði vegna mála á borð við skert einstaklingsfrelsi í Íran. Konur hafa til að mynda tekið af sér höfuðslæður sínar og kveikt í þeim til að lýsa reiði sinni. 

Bandaríkin beita viðskiptaþvingunum

Raisi fullyrti í gær að rannsókn verði gerð á andláti Amini. Málið væri komið í hendur dómsmálayfirvalda. Bandaríkjastjórn setti í gær á viðskiptaþvinganir gegn siðgæðislögreglunni, auk sjö leiðtoga íranskra öryggisyfirvalda.

Í yfirlýsingu bandaríska fjármálaráðuneytisins segir að öryggissveitir Írans beiti ofbeldi til þess að kveða niður mótmæli almennra borgara. Aðgerðir siðgæðislögreglunnar eru fordæmdar. Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, vill að írönsk stjórnvöld láti af ofbeldi sínu gagnvart konum og tjáningarfrelsi.