Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Framúrskarandi listamenn hinn raunverulegi aðall

Mynd: EPA / EPA

Framúrskarandi listamenn hinn raunverulegi aðall

23.09.2022 - 09:46

Höfundar

Javier Marías lést á dögunum, sjötugur að aldri, sem pistlahöfundur Víðsjár segir að hafi verið of snemmt. „Hann dó áður en hann fékk Nóbelsverðlaunin sem hann var orðaður við fyrir áreiðanlega tuttugu árum og mörg eru á því að þau hefði hann átt skilið.“

Gauti Kristmannsson skrifar:

„Ég vil ekki deyja eins og einhver bjálfi,“ segir sögumaður í skáldsögunni El hombre sentimental eða Maður tilfinninga, titill sem vísar kannski til skáldsögu frá 1771 eftir Skotann Henry MacKenzie og heitir The Man of Feeling og er þekkt dæmi um stefnu viðkvæmninnar sem hátt reis á síðari hluta átjándu aldar, á tíma þegar sönn karlmennska fólst í tilfinningasemi og táraföllum, nokkuð sem nítjánda öldin hló sig máttlausa yfir, þótt margir höfundar hennar hafi nýtt sér viðkvæmnina á réttum stöðum, má þar nefna Charles Dickens sem dæmi. En höfundur El hombre sentimental, Javier Marías, notar hana íronískt, paródískt, og yfirlýsingin hér í upphafi rennur út í annarlega ástarjátningu og lofsöng til ástarinnar, eða kannski ekki, við getum ekki verið viss. Javier Marías dó á dögunum og langt í frá eins og bjálfi, hann dó úr lungnabólgu og lét eftir sig konu sína Carme López Mercader. Kannski lést hann á fullkomlega réttan hátt eins og sögumaðurinn í Manni tilfinninga vildi deyja.  

Lést áður en hann fékk Nóbelinn

Javier Marías dó samt fyrir aldur fram þótt sjötugur væri og hefði orðið sjötíu og eins árs 20. september. Hann dó áður en hann fékk Nóbelsverðlaunin sem hann var orðaður við fyrir áreiðanlega tuttugu árum og mörg eru á því að þau hefði hann átt skilin, líka íslenskir höfundar sem deildu um tilgang skáldskaparins í byrjun þessarar aldar á blöðum Lesbókarinnar sálugu og vísuðu til hans meðal annarra. Það var einmitt einhver nýr tilgangur skáldskaparins sem hann færði heiminum með bókum sínum, hann skóp nokkurs konar öfugmælafagurfræði í anda Faulkners og vísaði til hans einu sinni þegar hann var spurður um tilgang skáldskapar: „Ég held að það hafi verið Faulkner sem sagði einu sinni að þegar þú kveikir á eldspýtu í myrkri auðn, þá er það ekki til þess að sjá eitthvað betur upplýst, heldur einungis til að sjá hversu mikið meira myrkur er í kring. Ég held að bókmenntir geri þetta aðallega. Þær eiga eiginlega ekki að „svara“ neinu, ekki einu sinni að skýra neitt, heldur miklu fremur að kanna – oft í blindni – gríðarmikið myrkur og sýna það betur.“ Hann var líka á því að skáldskapur væri oft hentugri til að segja frá en til að mynda sagnfræði, sem er ágæt fyrir sinn hatt, en hún er líka skáldskapur, því við erum oft ekkert sammála um túlkun staðreynda, ég tala nú ekki um núna, þegar staðreyndir eru orðnar valkvæðar. Hann tók einu sinni dæmi um þetta í viðtali og benti á hjón sem deila og deila kannski helst um það sem annað eigi að hafa sagt nokkrum mínútum áður og harðneitar því. 

Þýðingar góður skóli fyrir rithöfunda

Javier Marías byrjaði ungur að skrifa og fyrsta bókin eftir hann, Los dominios del lobo, Yfirráðasvæði úlfsins, kom út þegar hann var tvítugur.  Næsta bók kom út tveimur árum síðar, en í kjölfarið sneri hann sér að þýðingum og kennslu í þýðingafræði við Oxford-háskóla og Complutense-háskólann í Madríd, en hann taldi að þýðingar væru góður skóli fyrir verðandi rithöfunda. Hann þýddi fjölda þekktra höfunda; Thomas Hardy, Joseph Conrad, John Updike, Vladimir Nabokov, William Faulkner, Robert Louis Stevenson, Henry James og fleiri, en frægust er vísast þýðing hans á Tristram Shandy eftir Laurence Sterne, en fyrir hana fékk virtustu þýðingaverðlaun Spánar 1979. Söguhetjur hans eru líka oftast þýðendur og túlkar, fólk sem hefur „afneitað eigin rödd“ eins og hann sagði, en skapar um leið eitthvað nýtt fyrir utan sig sjálft, rétt eins og skáldið túlkar heiminn, dálítið í anda orða rómantíska skáldsins Novalis sem sagði að „allur skáldskapur væri þýðing“. 

Aðeins ein bók til á íslensku

Hann tók að vekja athygli út fyrir landsteina Spánar og verk hans tóku að birtast í þýðingum á önnur mál, þýsku og ensku auk annarra mála og skáldsagan Todas las almas, Allar sálir, með Oxford-háskóla sem sögusvið, var fljótt þýdd á ensku og segja má að með henni hafi hann komist á blað sem mikilvægur höfundur. Corazón tan blanco, Hjarta svo hvítt sló síðan í gegn víða í Evrópu og eftir það var hann einn umtalaðasti höfundur álfunnar og þótt víðar væri leitað. Á íslensku hefur aðeins komið út ein bók eftir hann, Ástir, þýðing á Los enamoramientos eftir Sigrúnu Ástríði Eiríksdóttur og gegnir það furðu að eftirtekjan skuli vera svo rýr hér í landi bókmenntanna. Gagnrýni um bókina var jákvæð, en líkast til hefur hún horfið í trumbuslætti okkar árlega jólabókaflóðs. 

Skondinn tilvera konungdómurinn

Skondinn flötur á tilveru skáldsins er síðan konungdómur hans. Í sögunni Allar sálir er ein minni háttar persóna sem á sér raunverulega fyrirmynd, John Gawsworth, rithöfundur, ljóðskáld og mannfræðingur, sem hafði verið konungur hins ímyndaða konungdæmis Redonda sem á að vera á óbyggðri eyju með sama nafni í Karíbahafi. Arftaki hans, rithöfundur að nafi Jon Wynne-Tyson afsalaði sér hins vegar völdum og tilnefndi Marías sem konung Redonda. Reyndar eru þeir allmargir sem gera tilkall til þessa konungdóms, en Marías kallaði sig Xavier fyrsta eftir þetta og veitti allmörgum vinum sínum aðalstitla. Þetta eru mörg af þekktustu skáldum, kvikmyndagerðar- og fræðimönnum samtímans. Hann stóð meira að segja fyrir bókmenntaverðlaunum þar sem hertogarnir og hertogaynjurnar voru í dómnefnd og ku sjaldan hafa verið eins frægt fólk í einni dómnefnd og verðlaunahafarnir hlutu einnig hertogatign. Hugsanlega var þessi paródía konungdæmis íronískt bragð þar sem undirstrikað er hverjir séu aðall samtímans í raun og veru, framúrskarandi listamenn. Eða kannski ekki, um það er ekkert hægt að fullyrða. 

Hjálpaði okkur að sjá myrkrið

Hins vegar má fullyrða að þýðandinn og skáldið Javier Marías var án allrar íroníu bókmenntajöfur sem átti sér fáa líka og um leið marga, því hann óf sinn flókna og áhugaverða bókmenntavef upp úr því sem hann hafði lesið og þýtt, honum hefur verið líkt við Proust, Henry James og Thomas Bernhard, eins og Jonathan Coe bendir á í inngangi sínum að Hjarta svo hvítu, og hann áréttar að Marías hafi endurnýjað hina módernísku skáldsögu með því vinna á nýjan hátt með algildi einstaklingsins; það bókmenntalega þrekvirki skáldsögunnar að eyða muninum á hinu almenna og því sértæka, þannig að þegar við lesum sögu af einstaklingnum Don Kíkóta vitum við um leið að saga hans getur verið saga okkar allra. Coe heldur því fram að módernisminn hafi rautt þessu úr vegi, en að Marías hafi fundið það aftur með tækjum módernismans. Það væri kannski hegelsk syntesa hjá höfundi sem las og þýddi höfunda frá átjándu öld til þeirrar tuttugustu, höfunda sem flestir mörkuðu djúp spor í bókmenntirnar á sínum tíma og eftir það. En hvernig sem blandan er til komin er víst að hún er góð og það er mikil eftirsjá að höfundi á borð við Javier Marías, höfundi sem hjálpaði okkur að sjá myrkrið allt um kring. Kannski er við hæfi að segja nú: Konungurinn er látinn, lengi lifi ... hver, já hver? 

 

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Stokkhólmur heimili þar sem mörg herbergi voru læst

Bókmenntir

Skáldskapur fullur manngæsku

Bókmenntir

Kraftaverkasögur sem koma sífellt á óvart

Bókmenntir

Ástir - Javier Marias